Um áramót
Kæru Mosfellingar!
Um áramót er venja að líta yfir farinn veg, rifja upp og meta hvernig liðið ár hefur gengið og ekki síður velta fyrir sér hvað bíður okkar á nýju ári.
Í heildina litið má segja að árið 2015 hafi verið gott ár. Hagsæld hefur aukist, kjör batnað og uppgangur er í þjóðfélaginu um þessar mundir. Í Mosfellsbæ er þetta líka raunin en hér fer fram mikil uppbygging á íbúðahúsnæði, atvinnuhúsnæði, skólum og umferðarmannvirkjum. Kannanir síðustu ára hafa sýnt að íbúar í Mosfellsbæ eru ánægðir. Þar fléttast saman sú þjónusta sem sveitarfélagið er að veita og það góða samfélag sem íbúar þess skapa.
Miklar kjarabætur starfsmanna
Það má segja að árið 2015 hafi verið ár hinna stóru kjarasamninga. Á árinu tókst sögulegt samkomulag flestra stéttarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, ríkisvaldsins og sveitarfélaga um ramma launahækkana næstu þrjú árin, sk. SALEK samkomulag. Samkomulagið felur í sér um 30% launahækkun á þessu tímabili sem er sögulega mjög há hækkun sérstaklega í ljósi lágrar verðbólgu. Launakostnaður er langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaga og er launakostnaður Mosfellsbæjar að hækka um 17% milli áranna 2015 og 2016. Því miður eru tekjur ekki að hækka samsvarandi og því er rekstur sveitarfélagsins erfiður nú um stundir. Þetta sama á við um önnur sveitarfélög. Það er skoðun sveitarstjórnarmanna að skoða þurfi tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga upp á nýtt. Tillögur þess efnis munu vonandi fá jákvæða niðurstöðu á árinu 2016.
Nýr Helgafellsskóli í undirbúningi
Mikil uppbygging hefur verið í skólamálum á undanförnum árum samfara fjölgun í sveitarfélaginu. Mosfellsbær er vinsælt sveitarfélag og eftirsótt til búsetu, það sannar eftirspurn eftir húsnæði hér í bæ. Við Höfðaberg er á lokastigi uppbygging á skólahúsnæði fyrir rúmlega 200 börn en þar verður kennsla fyrir 5, 6 og 7 ára börn við góðan aðbúnað næstu árin. Vel hefur tekist til með þetta húsnæði sem hefur komið fram í ánægju meðal barna, foreldra og starfsfólks þó að auðvitað hafi framkvæmdir og rask þeim tengdum tekið á. Þetta hefur létt mjög á húsnæðismálum í Lágafellsskóla og má segja að þar sé komið á gott jafnvægi í húsnæðismálum. Undirbúningur á byggingu nýs skóla í Helgafellslandi er komin vel á veg. Þarfagreining er á lokastigi og fyrirhugað er útboð á hönnun á næstu vikum. Ráðgert er að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2018 sem mun létta á skólasvæði Varmárskóla.
Uppbygging í Helgafelli, Leirvogstungu og í miðbæ
Nú um áramótin höfðu verið gefin út byggingarleyfi fyrir rúmlega 300 íbúðir í Helgafellshverfi en fullbyggt er gert ráð fyrir um 1000 íbúðum þar. Mikill gangur hefur einnig verið í Leirvogstunguhverfinu sem senn mun verða fullbyggt. Í miðbæ er auk þessa að hefjast mikil uppbygging. Mosfellingum fjölgar því þó nokkuð hratt um þessar mundir og styttist í tíu þúsundasta íbúann.
Atvinnuuppbygging í vændum
Eftirspurn eftir atvinnulóðum jókst mikið á síðasta ári. Þannig eru flestar lóðir við Desjamýri seldar en þar eru 10 lóðir þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Nokkrar fyrirspurnir hafa verið um lóðir í Sunnukrika og miðbæ sem vonandi leiðir til atvinnuuppbyggingar þar. Einnig má nefna að tvö stór þróunarverkefni sem tengjast ferðaþjónustu hafa verið í undirbúningi á árinu. Þannig er nú í skipulagsferli uppbygging á víkingabæ við Selholt í Mosfellsdal og svo er í skoðun bygging tíu þúsund fermetra þrívíddar Íslandskorts á Leirvogstungumelum. Hvorutveggja verkefni sem munu draga að sér hundruð þúsunda ferðamanna ef þau verða að veruleika.
Mig langar til að benda á nokkur atriði í fjárhagsáætlun næsta árs sem bæði ungir og aldnir njóta góðs af. Þar er gert ráð fyrir óbreyttum leikskólagjöldum. Auk þess var samþykkt að koma á systkinatengingu á frístundaávísun sem niðurgreiðir enn frekar frístundir hjá barnmörgum fjölskyldum. Einnig var samþykkt að hækka niðurgreiðslur vegna dvalar í sjálfstætt reknum leikskólum og ákveðið var að auka afslátt af fasteignagjöldum til tekjulágra eldri borgara. Þetta eru allt kjarabætur til Mosfellinga sem er ánægjulegt.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru hvað varðar það sem gerst hefur í Mosfellsbæ á s.l. ári, en of langt mál væri að telja það allt upp. Samstarfið í bæjarstjórninni hefur gengið vel á árinu. Traust og gott meirihlutasamstarf er milli D- og V- lista í bæjarstjórninni. Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2015 og megi nýrunnið ár vera okkur gæfuríkt og gleðilegt.
Haraldur Sverrisson
Bæjarstjóri