Borða, sofa, æfa

eat

Grunnurinn er mikilvægastur. Í öllu sem við gerum. Ef grunnurinn er ekki sterkur, getur það sem á honum er byggt aldrei verið sterkt. Hús er skýrt dæmi. Heilsa er nákvæmlega eins. Þú þarft að byggja sterkan heilsugrunn til að vera fullkomlega heilsuhraust/ur.

Heilsugrunnurinn byggir á þremur meginstólpum: næringu, svefni og hreyfingu. Ef þú vanrækir einhvern af þessum stólpum, er heilsugrunnur þinn ekki sterkur. Svo einfalt er það. Það skiptir ekki máli þótt þú mætir á æfingu fimm sinnum í viku, ef mataræðið eða svefninn er ekki í lagi vantar sterka stólpa í grunninn. Sama gildir ef þú sefur í átta tíma á hverri nóttu en sinnir ekki líkamanum. Allir stólparnir eru mikilvægir og við þurfum að sinna öllum vel.

Þetta er alls ekki flókið, í raun sáraeinfalt. Málið er bara að við erum svo ótrúlega góð í að búa okkur til afsakanir og selja sjálfum okkur þá vondu hugmynd að við þurfum að leyfa okkur allt, gera vel við okkur, að allt sé gott í hófi. Afleiðingin af þannig hugsunarhætti er að við vökum allt of lengi yfir einhverju sem skiptir litlu máli, borðum allt of mikið rusl og nennum ekki að hreyfa okkur. Leiðin út úr þessu er sjálfsagi.

Aga sjálfan sig til að hætta að gera það sem fer illa með okkur. Hætta að leyfa sér allt og falla fyrir öllum freistingum. Horfa þess í stað fram á veginn. Hugsa sex mánuði fram í tímann. Setja sér einföld markmið sem skila þér árangri, láta þér líða miklu betur, líkamlega og andlega. Gefa þér hámarksorku. Prófaðu þetta: Sofa í 7-8 tíma á sólarhring, borða mat en sleppa ruslfæði, nammi og gosi, labba úti á hverjum degi og mæta þrisvar sinnum í viku í styrkjandi hreyfingu. Hlustaðu á líkamann, finndu orkuna flæða og njóttu þess að vera heilsuhraust/ur.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. janúar 2016