Tvö ný hringtorg áætluð í Dalnum

Þingvallavegur í Mosfellsdal.

Þingvallavegur í Mosfellsdal.

Vegagerðin áformar að gera tvö hringtorg á Þingvallavegi í Mosfellsdal til að draga úr umferðarhraða á veginum og þar með auka umferðaröryggi og draga úr umferðar­hávaða.
Engin áform eru uppi um að tvöfalda veginn eða búa til 2+1 veg. Aftur á móti verður hvor akrein breikkuð um 20 sentímetra og vegöxlin breikkuð úr 30 sentímetrum í 1 metra til að auka öryggi hjólandi vegfarenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hraðalækkandi „aðkomuhlið”
Helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru er gerð tveggja hringtorga á Þingvallavegi, annars vegar við gatnamót Helgadalsvegar og hins vegar við Æsustaðaveg og Mosfellsveg (eða aðeins vestar) og að í kjölfarið verði hægt að fækka tengingum við Þingvallaveg á þessum vegkafla.
Auk hringtorganna er gert ráð fyrir hraðalækkandi „aðkomuhliðum“ á þeim stöðum þar sem hraðaviðvaranir hafa verið settar upp undanfarin ár.
Þá er gert ráð fyrir undirgöngum vestan við hringtorgið við Helgadalsveg fyrir umferð gangandi, ríðandi og hjólandi vegfarenda. Einnig verður fyllt upp í skurð sem er meðfram Þingvallavegi, sem gerir mögulegt að færa göngustíginn fjær veginum.