Tölum saman um menntamálin
Það vill oft verða þegar tekist er á í stjórnmálum að þeir sem takast á eru í raun ekki að tala hver við annan.
Maður sér þetta oft á Alþingi Íslendinga að pólitíkusar eru ekki að reyna að sannfæra hver annan um eigin málstað heldur eru þeir sem tala í raun bara að tala við kjósendur. Ekki er verið að miðla málum til að finna bestu lausnina heldur er áherslan lögð á að klekkja á andstæðingnum. Menntamál eru fyrirferðarmikil í pólitískri umræðu í öllum sveitarfélögum.
Allir hafa skoðun á skólakerfinu og eru umræður oft fyrirferðarmiklar á samfélagsmiðlum og Mosfellsbær er engin undantekning í því. Fræðslunefnd Mosfellsbæjar hefur starfað með ágætum þetta kjörtímabil og málefnaleg umræða verið um öll þau mál sem koma fyrir nefndina. Auðvitað hafa flokkarnir stundum mismunandi áherslur en það er augljóst á því góða fólki sem nú skipar nefndina að allir bera hag skólanna fyrir brjósti. Því hefur andrúmsloft samvinnu og virðingar svifið yfir vötnum á fundum nefndarinnar.
Eitt af stóru verkunum nú undir lok kjörtímabilsins hefur verið að smíða nýja menntastefnu Mosfellsbæjar. Skipuð var fagleg nefnd með fulltrúum allra skólastiga til að vinna þessa vinnu og haldnir hafa verið fjölmargir rýnifundir með hagaðilum til að fá sem flestar raddir til að hljóma. Fundað hefur verið með starfsfólki skóla, með skólabörnum og sérstakur opinn fundur var haldinn með íbúum bæjarins, þar sem allir gátu fengið að tjá sig og koma með hugmyndir. Upp úr þessum fundum hefur nú verið smíðuð menntastefna sem er á lokastigum og verður frábært leiðarljós fyrir skólastarf í bænum.
Á þessu kjörtímabili hefur mikið áunnist í skólamálum. Frábært þróunarstarf í leikskólamálum og fjölgun plássa. Við höfum verið að taka í notkun glæsilegasta skólahús landsins í áföngum og endurbætur á eldra skólahúsnæði hefur verið með þeim hætti að önnur sveitarfélög eru að taka það til fyrirmyndar. Þrátt fyrir það heyrast oft raddir sem reyna að rífa niður þetta ágæta starf og tilgangurinn virðist ekki vera að bæta skólastarfið heldur einungis að koma höggi á stjórnmálamenn. Það er mikilvægt að friður sé um skólastarf á öllum stigum og að ekki sé verið að nota skólamál til að koma pólitísku höggi á andstæðinga með þeim hætti að það bitni á skólunum.
Höldum áfram góðu og uppbyggilegu samtali um skólamál þar sem allar raddir fá að hljóma en hættum skítkasti og skotgrafahernaði.
Valgarð Már Jakobsson, varaformaður
fræðslunefndar Mosfellsbæjar fyrir hönd VG.