Jesús minn hvað gott er að búa í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Í síðustu grein minni fjallaði ég um loforð sem sett var í málefnasamning Sjálfstæðisflokks (XD) og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) eftir sveitastjórnarkosningarnar 2018. Þar var því lofað að leikskólagjöld yrðu lækkuð, án tillits til verðlagshækkana.
Sé litið á þróun leikskólagjalda fyrir börn yngri en 12 til 13 mánaða, fyrir 4 klukkustunda dvöl, var nýlega afgreidd gjaldskrá þar sem gjaldið fyrir þennan tíma kr. 9.787 en sú gjaldskrá tekur gildi frá og með 1.8.2022. Þetta var tillaga meirihlutans í Mosfellsbæ, XD og VG. Þetta er lækkun um 14,27% en ekki 25% lækkun í samræmi við gefið loforð. Rétt tala, sé staðið við loforðið væri kr. 8.562 fyrir sama tíma. Hér er því verið að „snupra“ barnafólk í Mosfellsbæ um kr. 1.224 krónur fyrir þessa dvöl á mánuði, a.m.k. þá sem treystu þessum flokkum fyrir atkvæði sínu. Fyrir 9 klst. dvöl er verið að „snupra“ með sama hætti sömu kjósendur um 3 þúsund á mánuði. Það munar um minna enda nemur þetta tugum til hundraða þúsunda á fjölskyldur í Mosfellsbæ á því kjörtímabili sem er að líða og inn á það næsta, sbr. nýsamþykkta gjaldskrá og tillögu XD og VG. Þessi gjaldskrá er þeirra pólitíska útspil og á henni bera þeir ábyrgð. Yrði lögð fram tillaga um að leiðrétta þetta yrði ég fús til að styðja hana komi hún fram nú fyrir kjördag en það þarf þá meirihluta til.
Er hægt að styðja framangreind framboð sem standa ekki við loforð? Þetta voru þeirra loforð. Líkur eru á að prófkjör og val á lista þessara framboða sýni fram á nýja sýn og endurnýjun. Því ber að fagna.
Annað mun eldra loforð var ekki aðeins gefið okkur kjósendum heldur einnig almættinu. Í grein fráfarandi bæjarstjóra Mosfellsbæjar og oddvita Sjálfstæðisflokksins, sem birt var í Morgunblaðinu 27. maí 2006, segir: „Á stefnuskrá okkar Sjálfstæðismanna fyrir komandi kosningar er að byggð verði kirkja í miðbæ Mosfellsbæjar.“
Á nýliðnum bæjarráðsfundi nr. 1520 þann 27. janúar sl., kom fram tillaga frá þessum sama meirihluta að byggja ekki kirkju í miðbæ Mosfellsbæjar. Þetta 16 ára afmælisár loforðsins var nýtt í að brjóta 8. boðorðið: „Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.“ Eru þá þegar einnig nokkur önnur af boðorðunum fokin út í veður og vind hjá þessum meirihluta.
Um þessar mundir má sjá myndbönd og auglýsingar um hve gott er að búa í Mosfellsbæ og það kyrja þeir sem hafa gengið í gegnum hverjar kosningar af fætur öðrum segjandi ósatt eða boða hálfsannleik. Það er fagnaðarefni ef miklar breytingar verði á listum framangreindra flokka enda ekki þörf á. Því er skorað á kjósendur Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri að taka hressilega til enda ekki vanþörf á kæru gömlu félagar. Við í Miðflokknum viljum starfa að heilindum með hugdjörfu fólki.
Guð minn góður hve gott er að búa í Mosfellsbæ.

Sveinn Óskar Sigurðsson
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ