Tíu þúsund fermetra Íslandslíkan í undirbúningi
Tíu þúsund fermetra Íslandslíkan í þrívídd gæti orðið að veruleika innan tveggja ára ef áform Ketils Björnssonar forsprakka hugmyndarinnar ganga eftir.
Mosfellsbær kemur sterklega til greina sem staðsetning fyrir líkanið sem er í skalanum 1:4000. Líkanið mun þekja um einn hektara lands og verða eina sinnar tegundar í heiminum.
Verið er að kanna staðsetningu á Tungumelum en til að varpa ljósi á stærð þess má nefna að Hvannadalshnjúkur verður um 110 cm á hæð. Áætlað er að framleiða líkanið á staðnum og mun þurfa um 15 þúsund fermetra hús undir það.
Styrkir ferðaþjónustu á svæðinu
Bæjarráð hefur fengið formlegt erindi um málið og fól Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra að vera í samskiptum við forsvarsmenn verkefnisins um staðsetningu verkefnisins í Mosfellsbæ og hvernig Mosfellsbær getur lagt verkefninu lið.
„Mér líst mjög vel á þessa hugmynd og það er fagnaðarefni að Mosfellsbær komi til greina fyrir þetta verkefni. Það myndi sóma sér vel í sveitarfélaginu sem er í alfaraleið og því ákjósanleg staðsetning fyrir afþreyingu af þessu tagi. Ég bind vonir við að svona verkefni myndi styrkja ferðaþjónustu á svæðinu og þar með atvinnulífið og mun því leggja mitt af mörkum til að þetta geti orðið að veruleika,“ segir Haraldur.
Frumkvæðið kemur frá Katli Má Björnssyni flugvirkja og hefur fyrirtækjaráðgjöf PWC unnið að undirbúningi málsins í samvinnu við hann og áhugasama fjárfesta.