Til hamingju með Helgafellsskóla
Það er ávallt gleðiefni þegar nýr grunnskóli opnar í hverju sveitarfélagi. Það ber merki fjölgunar og blómstrandi mannlífs í nýjum hverfum. Það er sannarlega staðreynd hér í Mosfellsbæ. Helgafellsskóli í Helgafellshverfi sem vígður var 8. janúar síðast liðinn hefur nú bæst í raðir okkar góðu skóla í Mosfellsbæ.
1.-5. bekkur byrjar
Margt fólk kom að hönnun og undirbúningi Helgafellsskóla. Settur var saman rýnihópur úr röðum foreldra, kennara, leikskólakennara, íbúa í Helgafelli og sérfræðinga í kennslufræðum. Hugað var vel að öllum þáttum og þá helst hvernig mæta má ólíkum þörfum barna í nútímasamfélagi. Skóli dagsins í dag er ekki sá sami og hann var fyrir áratugum því tímarnir breytast og mennirnir með. Í Helgafellsskóla munu nemendur fá að vaxa og skapa á öllum sviðum bæði innan dyra og utan. Nú er 1.–5. bekkur að hefja nám við skólann og í febrúar opnar leikskóladeildin. Byggingu skólans er ekki lokið. Næsti áfangi verður tekinn í notkun í haust og í vor verða svo boðnar út framkvæmdir við 3. og 4. áfanga skólans.
Helgafellsskóli og sú hugmyndfræði sem byggt er á mun veita nemendum tækifæri til að efla styrkleika sína og þar með trú á eigin getu. Í rýmunum fá kennarar tækifæri til að spreyta sig á fjölbreyttum kennsluháttum. Rýmin eða svæðin eins og skólastofurnar heita núna verða vinnustöðvar kennara og nemenda. Þar munu fjölbreyttir kennsluhættir blómstra í fjölbreytileika hússins. Þá er hugað að nýbreytni og gæðum í þjónustu fyrir leik- og grunnskólabörn. Skólarnir okkar eru fjölbreyttir en lykilatriði er þó alltaf sá mannauður sem í skólunum starfar.
Hjörtun slá í skólunum
Í skólunum slá hjörtun í Mosfellsbæ og skólarnir, bæði leik- og grunnskólar, skipta allar fjölskyldur mestu máli. Bæjarstjórn leggur allan sinn metnað við að veita fjölskyldum sem besta þjónustu. Í skólunum á gleðin að óma og börnin að njóta trausts og virðingar, þar má gera mistök og fá leiðbeinandi faðmlag fullorðinna sem aðstoða litlar manneskjur að verða góðar og gildar manneskjur í samfélagi framtíðarinnar. Það er hlutverk allra skóla.
Til hamingju með Helgafellsskóla og megi þar ávallt ríkja hugarfar umburðarlyndis, umhyggju, velvilja og virðingar líkt og í öllum okkar skólum.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar