Þetta mót er komið til að vera
Fyrir fjórum árum tóku Páll Örn Líndal og Golfklúbbur Mosfellsbæjar höndum saman og héldu styrktarmót í golfi, Palla Open. Öllum var velkomið að taka þátt og þátttökugjöldin runnu óskipt til styrktarmála.
Mótið sem nú er orðið að árlegum viðburði hefur vaxið mikið með árunum en á síðasta móti mættu 246 kylfingar til leiks, sem er metfjöldi.
Páll Örn er fæddur á Héraðshælinu á Blönduósi 22. maí 1967. Foreldrar hans eru Kristín Hjördís Líndal bóndi og hjúkrunarfræðingur og Eggert Egill Lárusson bóndi og verkstjóri. Eggert lést árið 2007.
Páll á fjögur systkini, Sigríði Jónu f. 1958, Soffíu f. 1964 l. 2024, Þröst Heiðar f. 1972 og Jónatan f. 1973.
Gott að alast upp í sveitinni
„Ég ólst upp í Hjarðartungu í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu og það var gott að alast upp í sveitinni, við mikið frjálsræði. Það var alltaf mikið líf og fjör, við krakkarnir fórum í útreiðartúra og brölluðum mikið saman.
Foreldrar mínir voru fjár- og hrossabændur en þau unnu líka önnur störf utan búsins. Mamma sem hjúkrunarkona á Héraðshælinu og pabbi við minka- og tófuvinnslu á vorin og í sláturhúsinu á Blönduósi á haustin.
Æskuminningarnar eru margar og flestar góðar, bestu minningarnar eru hvað maður fékk snemma að taka þátt í öllum störfum í sveitinni, maður naut mikils trausts. Líka það að fá tækifæri til að vera í svona mikilli nánd við náttúruna og kynnast af eigin raun hvað fjöllin og heiðarnar hafa upp á að bjóða í lífsbaráttunni.“
Þarna hrundi veröldin mín
„Æskuárin áttu líka sína skuggamynd sem var vel læst í huga mínum í 40 ár. Allt þar til ég komst að því að ég hefði ekki verið sá eini sem hafði lent í klóm einstaklings sem misnotaði mig, þarna hrundi veröldin mín.
Þetta gerist haustið 2021 og ég missti alveg fótanna í lífinu en með góðri hjálp fjölskyldunnar, vinnuveitanda, heilbrigðiskerfisins og lögreglunnar komst ég á lappirnar aftur. Árið 2022 lagði ég fram kæru gegn þessum einstaklingi og niðurstaðan varð sú sem ég var búinn að undirbúa mig fyrir, málið var fyrnt. Hinir sem kærðu líka fengu sömu niðurstöðu.“
Skólaárin voru skemmtileg
Páll gekk í barnaskóla á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal hjá Guðrúnu Bjarnadóttur sem kenndi börnum á aldrinum 7-9 ára. Þaðan fór hann í Húnavallaskóla og var fyrstu árin í heimavist. Eftir að skólaakstur var tekinn upp þá þurfti að keyra um 90 km á dag. Páll ákvað því að taka 9. bekk í Þingholtsskóla í Kópavogi og bjó hjá föðurbróður sínum og og fjölskyldu hans þann veturinn.
„Ég átti góðan og skemmtilegan tíma á skólaárunum og þá sérstaklega í Þingholtsskóla, þar komst ég að því að ég gæti lært og staðið mig vel í námi. Á sumrin starfaði ég við hefðbundin landbúnaðarstörf heima í Hjarðartungu.“
Sýndum fyrir fullu húsi
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég einn vetur í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki í járniðn. Ég tók þátt í leiklistarklúbbi skólans og við settum upp leiksýninguna Umhverfis jörðina á áttatíu dögum, þar fékk ég þann mikla heiður að leika aðalhlutverkið, Phileas Fogg. Við sýndum nokkrar sýningar fyrir fullu húsi.
Leið mín lá síðan í Iðnskólann í Reykjavík þaðan sem ég lauk námi í bifvélavirkjun. Ég hef einnig lokið diploma í markaðsfræðum frá HR og verkefnastjórnun frá HÍ.“
Alltaf nóg um að vera
Eiginkona Páls er Rakel Ýr Guðmundsdóttir mannauðssérfræðingur hjá Eflu. Dóttir þeirra er Andrea Líf f. 2009. Fyrir átti Páll Eydísi Örnu f. 1990 og Arnar Geir f. 2000.
„Við hjónin spilum golf, hjólum og ferðumst saman erlendis en svo er ég í skot- og stangaveiði og í félagsmálum, það er alltaf nóg um að vera,“ segir Páll aðspurður um áhugamálin.
Tækifæri til að vaxa í starfi
„Mín fyrsta launaða vinna var þegar ég var 12 ára en þá var ég aðstoðarmaður föður míns við minka- og refavinnslu. Alvörulaunaseðil fékk ég svo 13 ára gamall en þá vann ég við uppskipun á áburði við bryggjuna á Blönduósi. Vann síðan um haustið og næstu þrjú haust í sláturhúsinu á Blönduósi. Á þessum tíma hófst skólinn ekki fyrr en í lok september.
Ég fór síðan á samning hjá meistara mínum í bifvélavirkjun og vann aukavinnu í Stjörnubíó og við þrif hjá SS. Eftir útskrift úr bifvélavirkjun var hugur minn kominn annað og ég fór að starfa sem sölumaður hjá SS. Þaðan lá leiðin í eigin rekstur í nokkur ár og það var mikill skóli fyrir mig. Seldi reksturinn og fór að vinna sem sölu og markaðsstjóri hjá Vífilfelli, og sem markaðsstjóri hjá B&L og Sindra, stutt á hvorum stað.
Ég hóf svo störf hjá ESSO, síðar N1, og þar hef ég verið í 21 ár, hef verið heppinn að fá tækifæri til að vaxa í starfi en í dag er ég rekstrarstjóri einstaklingssviðs.“
Sælla er að gefa en þiggja
„Hugmyndin að Palla Open golfmótinu kviknaði í Covid. Mig langaði til að safna saman skemmtilegu fólki og spila golf eftir miklar samkomutakmarkanir sem fóru ekki vel í félagströll eins og mig.
Ég viðraði hugmyndina við Ágúst Jensson framkvæmdastjóra Golfklúbbs Mosfellsbæjar sem tók vel í þetta hjá mér og úr varð að við þróuðum hugmyndina saman. Leikfyrirkomulagið er tveggja og fjögurra manna Texas-mót þar sem allir geta tekið þátt. Yfirskrift mótsins er sælla er að gefa en þiggja. GM gefur alla sína vinnu og þátttökugjöldin renna óskipt til styrktarmála.“
Tvær flugur í einu höggi
„Fyrsta árið mættu 164 kylfingar til leiks, annað árið 198, þriðja 244 kylfingar og í ár 246. Það er búið að vera virkilega skemmtilegt að sjá hvað mótið hefur vaxið og dafnað, ég átti bara alls ekki von á þessu. Það er gefandi að taka þátt í að safna fjármunum sem maður veit að koma til með að renna í góð málefni.
Palla Open er komið til að vera, það er búið að festa sig í sessi sama hver stýrir því. Það væri samt gaman að fá tækifæri til að sjá um mótið árið 2027 og halda það 22. maí á sama degi og það byrjaði. Þá myndi maður slá tvær flugur í einu höggi og skella svo í gott afmælispartý, Pallaball í Hlégarði um kvöldið, við sjáum hvað setur,“ segir Páll og brosir er við kveðjumst.