Þetta er einfalt
Einstaklingur í Osló tekur 40 ára íbúðalán að verðmæti 26 milljónir og skv. útreikningum bankans mun hann greiða 40 milljónir til baka.
Einstaklingur í Reykjavík tekur á sama tíma 40 ára íbúðalán að upphæð 26 milljónir og skv. útreikningum bankans getur hann búist við að greiða 454 milljónir tilbaka miðað við verðbólgu síðustu 10 ára á undan.
Þetta er raunveruleikinn sem Íslendingar hafa þurft að búa við alltof lengi. Einstaklingurinn í Osló velur hinsvegar að taka lánið til styttri tíma og eftir um 25 ár er lánið uppgreitt og þar að auki hefur hann eignast fjallakofa, tvo bíla skuldlaust, bát inn í firði og erfanlegan séreignarlífeyrissparnað. Einstaklingurinn í Reykjavík er hinsvegar ennþá að greiða af láninu eftir 25 ár, er með bíl á bílalánum og fer í sumarfrí með fjölskylduna á kreditkortinu.
Það er einfalt að breyta þessu, það þarf eingöngu að afnema verðtrygginguna af lánum heimilanna og þá leið þekki ég. Verðtrygging á milli fagfjárfesta og ríkisins þarf aftur á móti að vera – eins og er í öllum þeim löndum sem við miðum okkur við – til þess að þessir aðilar sjái hag sinn í að halda verðbólgunni í skefjum. Þess vegna býð ég mig fram í annað til þriðja sætið á framboðslista Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi.
Ég veit að hinn venjulegi sjálfstæðismaður er ekki sáttur við hvernig komið er fyrir heimilum landsins og hvernig gæðum þess er skipt. Hann vill breytingar alveg eins og hinn venjulegi Íslendingur. Ég stíg því fram fyrir börnin mín og komandi kynslóðir og vill allt gera sem í mínu valdi stendur til að breyta þessu. Ég vel að vinna að þessum málum undir grunngildum og grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins þannig að þörfum heimilanna sé mætt og tryggt að hægt sé að lifa góðu og mannsæmandi lífi í okkar auðuga og gjöfula landi.
Það er því einfalt val í prófkjörinu á laugardaginn. Ef fólk vill þessar breytingar og fá að lifa við sambærileg kjör og íbúar hinna Norðurlandanna þá mætir það í prófkjör okkar Sjálfstæðismanna og setur undirritaðan í annað til þriðja sætið.
Vilhjálmur Bjarnason, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og ekki fjárfestir.