Þakklæti í verki
Ég var í sambandi við elsta son minn í morgun, spjallaði aðeins við hann um þennan pistil, um hvað hann ætti að fjalla. Hann stakk upp á að pistillinn fjallaði um þakklætisgöngur – það er þegar maður fer í rólegan göngutúr og einbeitir sér að því, hluta göngutúrsins, að hugsa um það sem maður er þakklátur fyrir. Mér leist vel á það.
Hann sagðist vera að vinna með sína eigin útgáfu af þakklætisgöngum. Hún snýst um að byrja daginn á því að hugsa um eitthvað sem maður er þakklátur fyrir og ákveða síðan að gera eitthvað sama dag sem tengist því. Hann kom með dæmi, sagði mér frá því að hann hefði hugsað um fyrir nokkrum dögum að hann væri þakklátur fyrir ömmu Dóru (ég er það líka, svo það sé nú á hreinu, hún er frábær tengdamóðir) og hann fagnaði því þakklæti með því að hringja í hana seinna sama dag og spjalla við hana um lífið og tilveruna. Þetta finnst mér stórsniðugt. Að búa til sína eigin útgáfu af aðferð sem maður lærir af öðrum. Gera hana að sinni, betrumbæta hana.
Ég ætla að prófa þessa tegund af þakklætisgöngu, hugsanlega strax í fyrramálið. Ætla ekki að ákveða núna hvað ég ætla að vera þakklátur fyrir, heldur leyfa því að koma til mín þá.
Fyrst við erum að tala um göngur, þá langar mig að mæla með því að ganga reglulega á einhver af fellunum okkar mosfellsku. Fellagöngur eru frábær útivist og hreyfing. Mátulega langar og stutt fyrir okkur að fara. Ég hef sjálfur verið að labba á Reykjafellið daglega, er að prófa að gera það allan septembermánuð. Hugmynd sem ég fékk lánaða hjá göngugarpinum Pálma Steingrímssyni. Ég lagaði hugmyndina að mér og mínum aðstæðum, gerði hana að minni. Alveg eins og sonur minn gerði með þakklætisgönguhugmyndina.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. september 2020