Þakklæti bætir, hressir og kætir
Vonandi hafa allir notið sumarsins og bæjarhátíðarinnar í faðmi fjölskyldu og/eða vina og náð að hlaða sig orku og jákvæðni fyrir veturinn.
Mantran um það að „lifa og njóta“ hefur farið hátt á undanförnum misserum og snýst hún ekki hvað síst um mikilvægi sáttar og þakklætis. Í stað þess að einblína á það sem við höfum ekki eigum við endilega að horfa til þess sem við höfum og vera þakklát fyrir það. Það er nefnilega svo ótrúlega margt sem við getum verið þakklát fyrir í lífinu eins og t.d. fyrir fólkið okkar, þak yfir höfuðið, sólskinið, hreina loftið (sem stundum er á mismunandi mikilli hreyfingu), mat á borðum, fallegt landslag og svo mætti lengi telja.
Hvað er þakklæti í raun?
Í bók sinni Gæfuspor – gildin í lífinu segir Gunnar Hersveinn þakklæti vera bæði innri upplifun og ytri tjáningu. Innra þakklætið lúti að því sem við erum, höfum, eigum og því sem kemur ekki fyrir okkur.
Galdurinn felist í því að kunna að bera kennsl á það sem virðist sjálfsagt og læra að meta það mikils eins og t.d. lífið, heilsuna, frelsið, æskuna, ellina, fjölskylduna, vinina o.s.frv. Ytra þakklæti lúti hins vegar að því sem aðrir láta okkur í té eins og t.d. samveru, viðurkenningu, virðingu, leiðsögn, góð orð, kærleik og samúð svo fátt eitt sé nefnt.
Þakklæti bætir heilsuna
Fjöldamargar rannsóknir sýna fram á að þakklæti bætir heilsu okkar. Sálfræðingurinn Robert A. Emmons hefur síðustu ár rannsakað áhrif þakklætis á fólk, samskipti, hamingju og heilsu.
Niðurstöður hans sýna m.a. að það einfalda atriði að þakka markvisst og meðvitað einu sinni í viku leiðir til betri heilsu, meiri gleði og hamingju, betri svefns og samskipta, meiri ákafa og bjartsýni, meiri styrks og ákveðni, meiri ástundunar líkamsræktar, meiri lífsánægju og er þá einungis talinn upp hluti þeirra góðu áhrifa sem þakklæti hefur á líf okkar og heilsu.
Temjum okkur að þakka fyrir góðu hlutina í lífi okkar, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, og virkjum fólkið í kringum okkar með í þessari vegferð til þakklætis, hamingju og heilbrigðis.
Kærar þakkir fyrir lesturinn!
Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ