Þakkir til skólafólks í Mosfellsbæ
Mikið hefur gengið á í samfélagi okkar síðustu mánuði og má segja að allt hafi breyst á einni nóttu.
Bregðast þurfti hratt og vel við kröfum Almannavarna og tókst skólafólki í Mosfellsbæ að stokka upp í skólastarfinu á met tíma. Unnið var dag og nótt við að undirbúa breytta kennslu og jafnframt tryggja öryggi nemenda og starfsfólks.
Mikilvægt var að halda starfsemi leik- og grunnskólanna gangandi þrátt fyrir erfiðleika og því er að þakka þolgæði, útsjónarsemi og forgangsröðun okkar kennara og skólafólks.
Skólinn í framlínu
Það var óbærileg tilhugsun að skólahald yrði lagt niður um tíma og tókst að bjóða öllum nemendum kennslu eftir þeim aðstæðum sem skólarnir hafa upp á að bjóða. Skólarnir í Mosfellsbæ eru fjölbreyttir og tókst að nýta húsnæði hvers skóla eins og kostur var miðað við kröfurnar sem gerðar voru um fjöldatakmörkun í hverju rými.
Gott skipulag og úrræðagott starfsfólk sá til þess að hægt var að halda úti kennslu eins og kostur var. Einnig tókst að bjóða öllum leikskólabörnum dvöl hluta úr viku og var frekar reynt að lengja vistina yfir daginn en að bjóða upp á fáar klukkustundir á hverjum degi.
Enn og aftur sannast það hve skólinn spilar stóran þátt í lífi okkar allra. Skólinn er meginstoð samfélagsins og miðjan í lífi fjölskyldna. Skólafólk er í framlínu alla daga og sannast það best þegar á reynir.
Velferð barna
Fátt er mikilvægara börnum og unglingum en að halda rútínu, stunda námið sitt og hitta vinina eins og kostur er. Að hafa unglinga heima í reiðuleysi getur kallað fram önnur vandamál sem erfitt getur verið að vinda ofan af. Skólinn er ramminn utan um líf barna og unglinga þar sem þau læra nýja hluti, takast á við áskoranir og styrkja sjálfsmyndina.
Þó að skólastarf sé hafið að fullu að nýju eru erfiðleikarnir ekki að baki. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á andlega líðan fólks og er mikilvægt er að vera vakandi yfir velferð barna og unglinga á erfiðum tímum.
Skólaþróun á methraða
Í Mosfellsbæ tókst að halda úti starfsemi í skólum og leikskólum í samkomubanninu án þess að nokkur vandræði kæmu upp. Skólafólk hélt þétt utan um hvert annað en það skiptir miklu máli að samstarfsfólk hlúi hvert að öðru og gæti þess að börnunum líði sem best. Þetta var áskorun og sýndi það sig að gott samstarf og samskipti gera kraftaverk.
4. maí rann upp og nemendur á öllum skólastigum mættu í skólann eins og þau þekkja hann best. Við lærðum öll heilmikið á þessu tímabili og má segja að mörg stór skref hafi verið stigin í skólaþróun á Íslandi.
Að lokum vil ég koma á framfæri að í bókunum fræðslunefndar og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar er gríðarsterku skólasamfélagi færðar miklar þakkir fyrir ómetanlega vinnu á erfiðum tímum.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
formaður fræðslunefndar