Kraftur hugans

Ég er farinn að nota hugarþjálfun í meira mæli en áður. Hugurinn ber mann hálfa leið. Hugarþjálfun er aldrei mikilvægari en á tímum þegar óvissa ríkir. Óvissan getur dregið úr manni kraft og orku, ef maður leyfir henni að taka völdin.

Hér er raunverulegt dæmi. Við erum að fara saman hópur til Austurríkis í september að taka þátt í Spartan Race keppni. Utanvegahindrunarhlaupi af bestu gerð. Við erum löngu búin að bóka gistingu og margir sömuleiðis búnir að kaupa flug. Allt saman vel fyrir covid. Staðan í dag er sú að hlaupið er enn á dagskrá og það er stefnt að því að það fari fram. Óvissuþættirnir eru ýmsir. Fer hlaupið fram á réttum tíma eða verður því frestað? Verður Icelandair enn starfandi? Verður hótelið farið á hausinn? Þurfum við að fara í sóttkví ef við komumst á staðinn? Þurfum við að fara í sóttkví þegar við komum heim? Og svo framvegis. Óvissuþættirnir eru fjölmargir.

En raunuveruleikinn er að það getur enginn leyst úr þeim akkúrat núna. Hvernig kemur hugurinn inn í þetta dæmi? Jú, við höfum ákveðið að einbeita okkur að því sem við getum haft stjórn á og hugsa sem minnst um hitt í bili. Við ætlum að undirbúa okkur eins og keppnin verði í september. Ætlum að æfa vel, passa mataræðið og almennt vel upp á okkur. Sjá fyrir okkur að við séum að fara í keppnina. Láta okkur hlakka til.

Tvennt getur síðan gerst. Keppnin verður haldin eða ekki. Ef hún verður haldin, þá förum við og njótum þess að hafa undirbúið okkur vel. Ef ekki, þá verðum við í toppformi í september og finnum okkur eitthvað annað skemmtilegt og krefjandi að gera. Til dæmis skella okkur í leitir og réttir og hlaupa upp um fjöll og firnindi á eftir léttfættum kindum. Plan B.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. maí 2020