Það vantar alls konar fólk í bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Helga Möller

Kæru Mosfellingar!
Ég vildi bara láta ykkur vita hvað mér líður vel hér í Mosfellsbæ. Mér finnst bæjarmálin ganga mjög vel og dáist að margs konar uppbyggingu í mörgum málum.
Ég dáist að umhverfinu í kringum Álafosskvosina og Stekkjarflötina með ærslabelgnum, þar sem krakkarnir geta leikið sér … ratleikjunum í kringum Varmá, merkingunum sem segja mér allt um Álafoss og fleira … uppáhaldsfossinum mínum og svo mætti lengi telja.
Ég fæ styrk frá öllum trjánum í kringum Varmá og eitt af því sem ég geri er að faðma tré til að mér líði betur. Þið ættuð bara að prófa það.

Ég dáist að Álafosskvosinni og vildi óska að næsta bæjarstjórn myndi gera hana að gamla bænum í Mosfellsbæ.
Þarna er mikil saga Mosfellsbæjar og mér finnst að þarna ætti allt að iða af lífi. Tónlist á nýju sviði við Ullarbrekkuna frábæru, þar sem ætti að hljóma tónlist, leikþættir, tónleikar með kórunum okkar í Mosfellsbæ, leikrit frá Leikfélagi Mosfellsbæjar. Börnin í skólunum og tónlistarskólanum gætu komið þarna fram og útskrifast á sviðinu sem fer alveg að rísa og svona mætti lengi telja. Í Mosfellsbæ býr stór hópur frábærs listafólks sem við þurfum að hlúa að og við eigum að búa til undursamlega stemningu með þeim á sviðinu … bæta við miklu fleiri viðburðum en bara á bæjarhátíðinni okkar „Í túninu heima”.
Eins sakna ég kaffihúsins sem var í kvosinni og vildi óska þess að Álafossbúðin yrði aftur eins og hún var en þangað gerði ég mér ferð á meðan ég bjó í Reykjavík til að að kaupa mér garn.

Kæru þið öll!
Það vantar alls konar fólk í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. T.d. konu eins og mig … 64 ára flugfreyju og söngkonu, íþróttakonu, móður, ömmu, vinkonu og bara svo margt fleira. Ég er ekki gallalaus og ég kann ekki allt, en með lífsreynslu og samvinnu með góðu fólki, alls konar fólki, verða góðir hlutir til, það er mín trú.
Ég býð mig því fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins því ég veit að ég get lagt eitthvað til og vonast eftir stuðningi ykkar í 3.-4. sætið.

Ykkar Helga Möller