Það er af mörgu að taka

Sveinn Óskar Sigurðsson framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi Miðflokksins segir flokkinn líta á mótlæti sem orku sem ber að virkja.

Sveinn Óskar leiddist ungur út í stjórnmál en það var nú alls ekki á döfinni af hans hálfu. Á unglingsárunum fór Sveinn að fara víða með föður sínum á fundi en hann starfaði bæði sem varaþingmaður og verkalýðsleiðtogi á Suðurlandi. Líklegt er að áhuginn hafi kviknað þar en Sveinn Óskar hefur komið að stjórnmálum allar götur síðan samhliða sínu starfi. Hann leiddi lista Miðflokksins í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnakosningarnar 2018, náði kjöri og starfar sem bæjarfulltrúi í dag.

Sveinn Óskar er fæddur á Selfossi 27. júlí 1968. Foreldrar hans eru Eygló Guðmundsdóttir fv. saumakona og Sigurður Óskarsson fv. framkvæmdastjóri.
Sveinn á fimm systkini, albróðurinn Elís f. 1971 og hálfsystkinin Guðmund f. 1954, Stefán f. 1957, Ragnheiði f. 1960 og Róbert f. 1960, d. 2009.

Umhverfið var krefjandi
„Ég er alinn upp á Hellu á Rangárvöllum þar sem umhverfið var krefjandi og spennandi, eldfjöll, jöklar, sandar, melar og tún. Það var gott að alast þarna upp og ég man fyrst eftir mér þegar ég sigldi um á vörubílaslöngu á stórri tjörn á milli neðri hluta þorpsins og þess efri þar sem fjölskyldan mín bjó.
Ég gleymi líka seint þeim degi sem við bræðurnir fengum hjól en ætli helsta æskuminningin sé ekki fyrsti kossinn. Ein besta vinkona mín gaf mér fulla heimild til að kyssa sig þegar við vorum bæði 10 ára gömul. Það gleymist nú seint en við höfum verið vinir alla tíð,“ segir Sveinn og brosir.

Nýtur lífsins í Tungunum
„Biskupstungurnar eiga stóran part af hjarta mínu þaðan sem móðir mín er ættuð en ég var þar í sveit. Þangað sæki ég mikið enn í dag því fjölskyldan á þar sumarhús og þarna er yndislegt að vera.
Nú, ekki má gleyma Seljavöllum undir Eyjafjöllum, þar áttum við fjölskyldan sumarhús um langa hríð. Þá skrapp maður oft í gömlu sundlaugina en afi minn, Sveinn Óskar, kenndi sund þar í áraraðir.“

Einir um alla fegurðina
„Ég gekk í Grunnskólann á Hellu og fór síðan í Menntaskólann á Laugarvatni. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem ég lauk BA í heimspeki og hagfræði, MBA í viðskiptafræði og MSc meistaraprófi í fjármálum fyrirtækja.
Yfir sumartímann á námsárunum starfaði ég hjá Landsvirkjun við girðingavinnu, gróðursetningar, vatnamælingar og önnur tilfallandi verkefni uppi á hálendi Íslands. Oft var farið í Landmannalaugar að kvöldi til, þar voru engir ferðamenn og við starfsmennirnir einir um alla fegurðina, þetta var dásamlegt,“ segir Sveinn og brosir.
„Einnig starfaði ég hjá alþjóðasviði Seðlabanka Íslands þegar ég stundaði nám í hagfræði.
Samhliða mastersnámi starfaði ég í 11 ár á fasteignasölu föður míns, það var góður skóli.“

Kynntust í Pekingháskóla
Eftir útskrift úr HÍ vann Sveinn Óskar að rannsóknum um efnahagsmál í Asíu í Pekingháskóla ásamt því að stunda nám í kínversku. Hann starfaði einnig sem blaðafulltrúi Morgunblaðsins í Kína.
Í háskólanum kynnist hann Samsidanith Chan eða Danith eins og hún er ávallt kölluð. Hún er fædd árið 1978 í Kambódíu og er lögfræðingur að mennt. Þau hófu sambúð árið 2000 og giftu sig ári seinna. Þau eiga saman tvær dætur, Sylvíu Gló f. 2001 og Ingrid Lín f. 2003.
Fjölskyldan hefur gaman af því að ferðast og eins fara þau mikið í bústaðinn í Biskupstungum. Í frítíma sinnir Sveinn ritstörfum, bóklestri, skógrækt og stangveiði.
Sveinn rekur lítið fjölskyldufyrirtæki og vinnur endrum og sinnum að gerð eignaskiptayfirlýsinga. Eins sinnir hann ráðgjöf bæði hér heima og erlendis er varðar greiningavinnu hvers konar sem og áætlanagerð.

Leitum að skynsamlegustu lausninni
„Ég hef starfað lengi í pólitík, ég sat bæði sem varamaður og aðalmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS), var formaður Fjölnis (FUS) í Rangárþingi um árabil og ég var einnig formaður félags Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ. Eftir breytingar á áherslum Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega hér í Mosfellsbæ, sá ég mér ekki fært að starfa fyrir flokkinn lengur.
Í dag starfa ég sem bæjarfulltrúi Miðflokksins en stofnfundur flokksins hér í Mosfellsbæ var haldinn 15. febrúar 2018. Við viljum veita og varðveita stöðuleika og standa vörð um vel ígrundaða stefnu flokksins enda flokkur framfara og raunsæis. Þetta er flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir. Við leitum ætíð að skynsamlegustu lausninni á hverju viðfangsefni á grundvelli rökhyggju og rökræðu. Það er af mörgu að taka og við lítum á mótlæti sem orku sem ber að virkja.“

Það þarf að fara vel með skattféð
„Ég sinni starfi mínu fyrir Mosfellinga með því að sækja bæjarstjórnarfundi og aðra fundi sem varðar málefnin er snúa að sveitarstjórnarmálum. Má þar helst nefna málefni eldri borgara, grunnskólabarna og málefni er snúa að fjárhag sveitarfélagsins.
Það skiptir öllu máli að sveitarfélög hagi fjármálum sínum með þeim hætti að fólk skynji að vel sé farið með skattféð. Sjálfstæði sveitarfélags er ekkert sé fjárhagur þess ekki sterkur og það geti ekki eitt og sér stuðlað að velferð aldraða, barna og sinnt nauðsynlegu viðhaldi á húsnæði og innviðum.
Okkar starf er að benda á það sem betur má fara og gæta þess að það sé gert með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.“

Mikilvægt að vinarþel ríki
„Miðflokkurinn í Mosfellsbæ hefur fundað um hin ýmsu málefni eins og samgöngumál og málefni ungra drengja sem mér eru mjög svo hugleikin enda alvarleg þróun hvað sjálfsmorðstíðni þeirra á Íslandi er há.
Ég hef, sem faðir og eiginmaður, afskaplega mikinn áhuga á jafnréttismálum kynjanna, ég á líka marga vini sem eru samkynhneigðir og vil ég að starf mitt í stjórnmálum miði að því að bæta stöðu þessa hóps almennt. Ég legg ríka áherslu á í stjórnmálum að þrátt fyrir pólitísk átök og mismunandi skoðanir fólks sé mikilvægt að vinarþel ríki á milli manna.
Mér hefur líkað mjög vel að starfa sem bæjarfulltrúi, ég vona að þekking mín og reynsla komi til með að nýtast mér í starfi. Það er sannarlega af nægu að taka í 12.000 manna bæjarfélagi sem fer ört vaxandi,“ segir Sveinn Óskar er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 25. júní 2020
ruth@mosfellingur.is