MotoMos í endurnýjun lífdaga

Ný stjórn MotoMos: Pétur Ómar, Egill Sverrir, Jóhann Arnór, Örn og Leon.

Þann 13. maí var kosin ný stjórn í Moto­Mos og við tók ein yngsta stjórn landsins hjá félagi innan MSÍ (Mótorhjóla- & vélasleðasambandi Íslands sem er hluti af ÍSÍ).
Formaður er Jóhann Arnór Elíasson en aðrir stjórnarmenn eru Leon Pétursson, Egill Sverrir Egilsson, Pétur Ómar Þorsteinsson og Örn Andrésson. Varamenn í stjórn eru þeir Egill Sveinbjörn Egilsson og Einar Sverrir Sigurðsson.
Á bakvið stjórn félagsins eru öflugir foreldrar og aðrir velunnarar félagsins. Stjórnina skipa eingöngu heimamenn héðan úr Mosfellsbæ. Með innkomu nýrrar stjórnar má segja að MotoMos gangi í ákveðna endurnýjun lífdaga en takmörkuð starfsemi hefur verið í gangi síðustu þrjú ár.

Grettistak í viðhaldi á svæðinu
Lyft hefur verið grettistaki í viðhaldi á svæðinu sem var komið til ára sinna. Allt húsið hefur verið tekið í gegn, frágangur á dreni á svæði bættur og nú standa yfir miklar viðgerðir á vökvunarkerfi.
MotoMos-brautin var opnuð í fyrsta sinn í ár laugardaginn 13. júní en sjaldan eða aldrei hefur brautin verið opnuð jafn seint á árinu eftir að hún tók til starfa. Stafar það af aðkallandi þörf á viðhaldi sem stendur enn yfir.

Vilja ná til nýrra og ungra iðkenda
Markmið nýrrar stjórnar er að ná til nýrra ungra iðkenda í Mosfellsbæ og koma þeim á einn stað til að stunda þessa skemmtilegu en krefjandi íþrótt. Liður í því er að hafa gott æfingasvæði. Fyrir þá sem þekkja ekki þá er motocross talin ein allra erfiðasta íþrótt í heimi í dag.
Það er mjög misjafnt í hvaða íþróttum börn finna sig. Sannað er að fáar íþróttagreinar höfða jafn mikið til barna með athyglisbrest og motocross.
Nýlega setti félagið á laggirnar æfingar fyrir börn og unglinga og fara þær fram tvisvar sinnum í viku út sumarið. Hver æfing stendur í minnst tvo tíma og er í höndum aðila sem er með þjálfararéttindi og er einnig crossfit-þjálfari í Crossfit Reykjavík.

Halda Íslandsmeistaramót í Mosó
Á döfinni er fyrsta Íslandsmeistaramótið í motocrossi sem haldið verður 27. júní, en ekki hefur verið haldið Íslandsmeistaramót hjá MotoMos síðan 2017. Gert er ráð fyrir um 100 keppendum í öllum aldursflokkum og fjölda áhorfenda en frítt er á svæðið fyrir áhugasama.
MotoMos skorar á þá sem ekki hafa fylgst með svona keppni að koma og sjá bestu ökumenn landsins takast á í afar skemmtilegri braut. Það er einstök aðstaða til að fylgjast með keppninni í MotoMos og eru fáar brautir jafn áhorfendavænar en útsýni er yfir alla brautina frá klúbbhúsi.