Listasalurinn starfræktur í 15 ár

Listasalur Mosfellsbæjar er 15 ára í ár. Salurinn er inn af Bókasafni Mosfellsbæjar og opinn á afgreiðslutíma þess.
Settar eru upp um tíu sýningar á ári og er umsjónarmaður Listasalarins Steinunn Lilja Emilsdóttir. Við spurðum hana nokkurra spurninga um starfsemi salarins.

Hvernig sýningar er boðið upp á?
Sýningar í Listasalnum eru mjög fjölbreyttar. Hér hafa verið sýnd málverk, vídeó­verk, ljósmyndir, skúlptúrar, innsetningar, textíll og handverk. Sumar sýningarnar eru sögulegar, sumar þemakenndar og aðrar persónulegar. Markmiðið er að sýna alls konar myndlist.

Eru listasýningar vel sóttar?
Já, þær eru það og undanfarin ár hefur gestum fjölgað. Listasalur Mosfellsbæjar er skemmtilegur að því leyti að fólk sem alla jafna sækir ekki myndlistarsýningar rambar inn þegar það á leið um bæinn eða í bókasafnið. Það hefur einnig færst í vöxt að fólk geri sér ferð úr nágrannasveitarfélögum til að kíkja á sýningar, enda Mosfellsbær minna úr leið en margir halda.
Skólabörn eru líka dugleg að kíkja á sýningar með kennurunum sínum. Það er sérstaklega gaman að yngri gestunum því þeir koma oft með skemmtilegar athugasemdir um listina og hafa aðra sýn en við sem erum fullorðin. Um daginn var t.d. sýning eftir Hjördísi Henrysdóttur þar sem þemað var sjómenn í sjávarháska og þá vildu börnin helst fá að vita hvort fólkið á myndunum hefði ekki örugglega komist heilt á húfi aftur heim til sín.

Hefur svona listasalur mikla þýðingu fyrir bæinn?
Alveg klárlega, bæir þurfa meira en heimili og fyrirtæki. Þar þurfa líka að vera samkomustaðir sem bæjarbúar nýta saman. Listasalur Mosfellsbæjar er kjörið afdrep til að taka smá pásu, taka inn menningu, horfa á fallega og áhugaverða hluti og velta þeim fyrir sér.
Í fyrra var t.d. sýnt verk eftir Pál Hauk Björnsson þar sem kúrbít var haldið uppi með spýtu. Mörgum eldri gestum fannst þetta heldur skrýtin list en þegar þeir fussuðu yfir þessu spurði ég hvort þeir hefðu nokkurn tíma séð svona áður. Allir svöruðu því neitandi. „Er ekki orðið langt síðan að þú sást eitthvað sem þú hefur aldrei séð áður?˝ Þá virtist fólk átta sig og brosti út í annað.

Hvað er fram undan hjá ykkur?
Við þurftum að fresta nokkrum sýningum út af hertu samkomubanni en næst á dagskrá er sýning Ásgerðar Arnardóttur. Hún er ung listakona sem vinnur með samspil tvívíddar og þrívíddar. Sýning hennar verður opnuð 29. maí kl. 16. Svo erum við núna að taka á móti umsóknum fyrir sýningarárið 2021.

Getur hver sem er sótt um?
Já, allir geta sótt um sem vilja. Við hvetjum Mosfellinga sérstaklega til að sækja um því mikil gróska er í listalífinu hér, sem Listasalur Mosfellsbæjar vill gjarnan taka þátt í að miðla. Ekki er skilyrði að fólk sé menntað í listum. Aðalmálið er að umsóknin sé vel unnin.
Að mínu mati er myndlist best þegar hún talar til áhorfandans og býður upp á tengingu við hann. Svo þarf líka að hafa í huga að það er enginn skaði skeður þótt maður fái neitun um sýningarpláss. Margar ástæður geta legið þar að baki og sjaldnast beinast þær að gæðum myndlistarinnar eða verkanna.
Í fyrra fengum við metfjölda umsókna en markmiðið er að slá það met í ár.