Takk fyrir okkur, sjálfboðaliðar
Eins og önnur íþróttafélög á Íslandi er Afturelding háð starfsemi sjálfboðaliða. Aðkoma sjálfboðaliða í íþróttastarfsemi byggir á áratugalangri hefð og er eiginlega grundvöllur þess að geta haldið úti fjölgreina íþróttafélagi.
Við sem störfum fyrir félagið erum meðvituð um þá staðreynd að það er alls ekki sjálfgefið að vera með jafn góðan hóp sjálfboðaliða og við höfum á að skipa hjá Aftureldingu.
COVID-19 heimsfaraldurinn minnti okkur á það hvers megnugir allir okkar sjálfboðaliðar eru. Við höfum þurft að bæta við alls kyns verkefnum sem snúa að sóttvörnum, til að mynda þarf nú að vera sóttvarnafulltrúi á öllum viðburðum sem deildirnar bera ábyrgð á að útvega.
Það er er krefjandi verk að halda úti áhuga og starfi þegar ekki má mæta á staðinn en sjálfboðaliðar okkar og þjálfarar hafa fundið ótrúlegustu leiðir og lausnir til að vinna með.
Rétt rúmlega hundrað einstaklingar eru á skrá hjá okkur og allir leggja þeir sitt af mörkum á einhvern hátt, svo hægt sé að halda úti starfinu.
Við erum með heilu ráðin, allt að 20 manns, sem hafa það afmarkaða verkefni að sjá um að handboltaleikir hjá karlaliðinu geti farið fram. Annar eins fjöldi heldur utan um sömu mál í kvennahandboltanum, sem og hjá báðum kynjum í knattspyrnu og blaki.
Fyrrnefndur sóttvarnafulltrúi þarf svo að vera til staðar, ritarar og dómarar, boltasækjar og fólkið á moppunni — svo fáeinir séu tíndir til.
Þá starfar lítill hópur innan félagsins að AftureldingTV og sér um að hægt sé að sýna frá hinum ýmsu mótum og leikjum. Það hefur reynst einstaklega dýrmætt að eiga, nú þegar COVID-19 hefur gert okkur ómögulegt að leika fyrir framan áhorfendur, eða hleypa foreldrum iðkenda á leiki eða mót.
Einnig eru innan okkar vébanda foreldrar og forráðamenn sem þreytast ekki við að skrá söguna með ljósmyndum og fréttum á heimasíðunni okkar.
Loks er rétt að nefna lítinn hóp vaskra sjálfboðaliða sem setti upp á sitt einsdæmi á fót fjáröflunarnefnd, sem gerir öllum iðkendum kleift að safna fyrir mótum, æfingagjöldum, búnaði eða öðru sem þau þurfa, alveg óháð því hvort flokkurinn þeirra eða deild standi í fjáröflun.
Þetta allt fyrir utan þá sjálfboðaliða sem sitja í stjórnum og ráðum deilda og sitja reglulega fundi til þess eins að halda utan um starfið, þjálfara og iðkendur.
Án þessara frábæru sjálfboðaliða væri starfið fátæklegt, við fögnum öllum þeim sem vilja vinna með okkur í skemmtilegu starfi í þágu barna, unglinga og alls bæjarfélagins.
Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar og
Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi Aftureldingar.