Sumarið handan við hornið

Signý Björg Laxdal

Signý Björg Laxdal

Nú fer að líða að sumarfríi hjá deildinni okkar í Mosfellsbæ. Sjálfboðaliðar okkar fóru í árlega vorferð daginn fyrir Uppstigningardag, en sú ferð hefur undanfarin ár verið farin stuttu fyrir sumarlokun deildarinnar.
Að þessu sinni var farið umhverfis Snæfellsnesið og Borgarfjarðardeild Rauða krossins einnig heimsótt á heimleiðinni. Ferðin vakti mikla lukku að vanda. Nú fara helstu verkefni okkar í dvala þar til líður að hausti, en skrifstofa deildarinnar verður lokuð frá 19. júní til 14. ágúst nk. Þótt skrifstofa deildarinnar verði lokuð á þessu tímabili og helstu verkefni í dvala, þá er alltaf hægt að ná í okkur í síma deildarinnar ef mikið liggur við. Hælisleitendum og heimsóknarvinum verður sinnt, auk þess sem Gönguvinirnir verða á ferðinni í mestallt sumar.
Á uppstigningardag fór stjórn deildarinnar í vinnuferð til Hveragerðis í stefnumótun og samveru. Þar gafst okkur tækifæri til að yfirfara verkefnin okkar, ræða ný og hvernig við getum gert enn betur á næsta starfsári. Mosfellsbæjardeildin hét áður Kjósarsýsludeild en Kjalarnes og Kjós tilheyrir enn okkar starfssvæði. Margir hælisleitendur eru á okkar svæði í Arnarholti og Víðinesi, þar sem menn hafa lítið við að vera og samgönguleiðir þeirra afar torveldar. Reynt hefur verið að létta þeim samgönguleysið með því að útvega þeim reiðhjól m.a. í samvinnu við Barnaheill, sem hafa í nokkur ár safnað reiðhjólum fyrir börn og ungmenni. Síðastliðnar vikur hefur verið enskunámskeið fyrir þá í húsnæði okkar að Þverholti 7.
Námskeiðið var mjög vel heppnað að sögn sjálfboðaliða og nemenda. Þetta eru allt karlmenn á ýmsum aldri og af mjög mismunandi þjóðerni. Við viljum sérstaklega hvetja karlmenn til þess að kynna sér starf með hælisleitendum.
Okkur þykir gríðarlega mikilvægt að mæta þörfum þeirra sem nýta sér þjónustu okkar og um leið sýna framtíðar sjálfboðaliðum hve gefandi og áhrifaríkt það getur verið að gefa brot af tíma sínum. Það má alltaf hafa samband við okkur í gegnum Fésbókarsíðu deildarinnar eða með því að senda tölvupóst á starfsmann okkar hulda@redcross.is fyrir nánari upplýsingar. Verkefnin eru fjölbreytt en við munum kynna þau betur í haust fyrir forvitna og opna huga.
Fyrir tæplega tveimur árum tók ég þá ákvörðun að gerast heimsóknarvinur en það sem kom mér mest á óvart við það var hve verðmæt ein klukkustund á viku varð. Sjötíu ára aldursmunur okkar varð að engu þegar við sátum saman að skoða gamlar ljósmyndir og drekka kaffi.
Í vor kvaddi sú kæra vinkona en eftir sitja fallegar minningar og þakklæti fyrir kynni okkar. Verkefni geta verið svo miklu meira en bara verkefni. Að lokum er tilvalið að rifja upp sígild orð sem eru eitthvað á þá leið að enginn getur allt, en allir geta eitthvað.
Fyrir hönd stjórnar RKÍMOS þakka ég fyrir velvild í okkar garð og vel unnin störf ómetanlegra sjálfboðaliða. Sjáumst í túninu heima!

Signý Björg Laxdal, varaformaður
Rauða Krossins í Mosfellsbæ.