Stolt
Fimm ára guttinn minn fór á sitt fyrsta fótboltamót um síðustu helgi. Stoltur af því að klæðast rauðu Aftureldingartreyjunni. Það eru 14 ár síðan elsti guttinn minn fór í fyrsta skipti í búning Aftureldingar og hann var jafn glaður og sá fimm ára um síðustu helgi. Strákarnir mínir fjórir hafa æft fótbolta, handbolta, frjálsar, karate og taekwondo hjá félaginu okkar og eins og margir foreldrar í Mosfellsbænum eigum við skápa og skúffur af alls konar æfinga- og keppnisbúningum merktum Aftureldingu.
Ég er Fylkismaður í grunninn, ólst upp í Árbænum og hef sterkar tengingar við gamla hverfisfélagið. Árbærinn var til að byrja með blanda af fólki sem kom úr öðrum hverfum Reykjavíkur. Þarna voru KR-ingar, Framarar, Valsarar og Þróttarar. Menn héldu lengi í gömlu félögin, sendu krakkana sína á æfingar til þeirra. Fylkir verður 50 ára á næsta ári. Ungt félag með marga stolta félagsmenn. Þeir sem eru stoltastir af Fylki í dag eru akkúrat þeir sem áður höfðu sterkustu taugarnar til gömlu félaganna.
UMFA er 107 ára, stofnað 1909. Samt er eins og Afturelding sé yngri en Fylkir. Mosfellsbærinn er enn stútfullur af Stjörnumönnum, ÍR-ingum, KR-ingum og fulltrúum annarra félaga. Menn sem hafa búið í Mosó í áratugi eru enn að tengja sig við gamla félagið sitt. Fara frekar á leiki með því, eru jafnvel að senda krakkana sína á æfingar til þess.
Nú breytum við þessu. Strax. Þjöppum okkur saman um félagið OKKAR og styðjum það í blíðu og stríðu í öllum íþróttagreinum. Hættum að hugsa hvað Afturelding getur gert fyrir mig og mína og förum að hugsa: „Hvað get ég gert fyrir Aftureldingu?“ Hverfisfélagið okkar með allar sínar deildir er byggt upp af sjálfboðaliðum og styrktaraðilum. Án þín verður engin Afturelding. Ekkert hverfisfélag. Verum stolt af rauðu treyjunni, af merkinu, laginu, félaginu okkar. Stöndum upp fyrir U-M-F-A!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. desember 2016