Stjórnsýsla Mosfellsbæjar
Í lok síðasta árs var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar að fara í stjórnsýsluútekt í Mosfellsbæ. Bæjarfulltrúar D-lista samþykktu tillöguna, en síðast var farið í úttekt á stjórnsýslu bæjarins árið 2014.
Þó svo að stjórnsýslan hafi þróast og tekið jákvæðum breytingum í gegnum árin þá er alltaf gott að fá utanaðkomandi aðila til þess að skoða hlutina, rýna til gagns og koma með nýjar hugmyndir með það að markmiði að bæta þjónustu og starfsemi bæjarins enn frekar.
Ráðgjafafyrirtækið Strategía var fengið til þess að vinna úttektina og í framhaldinu lagði bæjarstjóri fram viðamiklar breytingar á stjórnsýslu og skipuriti Mosfellsbæjar sem byggðar voru á skýrslu Strategíu. Bæjarfulltrúar D-lista komu ekki að gerð tillagna um skipulagsbreytingarnar og sátu hjá við afgreiðslu málsins meðal annars fyrir þær sakir. Breytingarnar eru sumar eðlilegar og margt jákvætt sem kemur fram, bæði í skýrslunni og tillögunum, en þar eru jafnframt ágallar sem við setjum fyrirvara við.
Það vekur einna helst athygli í samþykktum tillögum að það virðist eins og verið sé að innleiða skipurit Reykjavíkurborgar og færa skipulagseiningar í sama búning og gerist þar. Það er spurning hversu jákvætt það er fyrir Mosfellsbæ að færa stjórnsýsluna í átt til þess sem gert er í Reykjavík sérstaklega þegar kemur að fjármálum, stjórnun, skipulags- og starfsmannamálum.
Vonandi horfir nýr bæjarstjóri og meirihluti í Mosfellsbæ ekki of mikið til félaga sinna í Reykjavík þegar kemur að skipulagi og stjórnun í Mosfellsbæ.
Miklar og dýrar breytingar
Breytingatillögurnar sem lagðar voru fram af bæjarstjóra og meirihlutinn samþykkti eru viðamiklar og útgjöld vegna þeirra óljós, en öruggt er að kostnaðurinn verður hár.
Í tillögunum er t.d. gert ráð fyrir mikilli fjölgun starfsfólks og það skýtur skökku við í því efnahagsástandi sem nú ríkir að ætla að ráða þennan fjölda af nýju starfsfólki. Staðreyndin er sú að fram undan er niðurskurður á útgjöldum bæjarins sem felur jafnvel í sér frestun framkvæmda. Við þær aðstæður er stórfelld fjölgun starfsfólks ekki ákjósanleg.
Það hvort þær breytingar sem nú hafa verið innleiddar séu til þess fallnar að bæta þjónustuna, verklag, samhæfingu og starfsumhverfi starfsfólks Mosfellsbæjar mun tíminn einn svo leiða í ljós.
Hver er tilgangur með breytingum?
Samkvæmt skýrslunni er breytingatillögunum ætlað að endurspegla áherslur sem koma fram í málefnasamningi meirihlutans. Þetta er tiltekið á a.m.k. fjórum stöðum í skýrslu Stategíu sem og í kynningum og tillögunum byggðum á henni.
Við bæjarfulltrúar D-lista teljum að breytingar í stjórnsýslu og á skipuriti bæjarins eigi fyrst og fremst að snúast um að hámarka gæði, hagkvæmni og skilvirkni þjónustu fyrir alla bæjarbúa, en eigi ekki að snúast um málefnasamning meirihlutans, því meirihlutar koma og fara.
Markmið síðasta meirihluta D- og V-lista í Mosfellsbæ var að sýna ábyrgð í rekstri bæjarins, fara vel með skattfé og halda álögum á íbúa eins lágum og kostur var. Það eru leiðarljós sem nýr meirihluti virðist ekki ætla að viðhalda á sinni vakt, eins og bæjarbúar hafa nú þegar fengið að finna fyrir í gríðarlegum hækkunum fasteignagjalda og hækkun á útsvari.
Áhersla okkar bæjarfulltrúa D-lista í bæjarstjórn er að íbúar Mosfellsbæjar fái áfram eins góða þjónustu og hægt er þannig að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ.
Við þurfum að muna eftir að halda í gildi Mosfellsbæjar sem hér hafa verið höfð að leiðarljósi; virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.
Ásgeir Sveinsson og Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúar D-lista.