Niðurstaða stjórnsýslu- og rekstrarúttektar

Lovísa Jónsdóttir

Í árslok 2022 var ákveðið að gerð yrði stjórnsýslu- og rekstrarúttekt hjá Mosfellsbæ og voru allir bæjarfulltrúar sammála um að tímabært væri að fara í slíka úttekt. Það var ráðgjafafyrirtækið Strategía sem ráðið var til verksins og niðurstaðan lá fyrir í byrjun maí.
Í stuttu máli var niðurstaða úttektarinnar sú að mikil tækifæri eru til úrbóta í stjórnsýslu bæjarins svo unnt sé að þjónusta bæjarbúa enn betur og tryggja að vel sé farið með almannafé.
Helstu niðurstöður úttektarinnar eru að nauðsynlegt er að fara í umbætur á fjármála- og áhættuferlum, þá þarf að gera umbætur í stefnumörkun, skipulagi og stjórnarháttum auk þess sem mælt er með umbótum til að ná markmiðum í stafrænni þjónustu.

Nýtt skipurit
Alls eru lagðar fram 74 umbótatillögur í skýrslunni og hvetjum við alla bæjarbúa til að kynna sér efni skýrslunnar en hana má nálgast í fundargerð bæjarráðs frá 17. maí og fundargerð bæjarstjórnar frá 24. maí.
Fyrsta tillagan sem unnin er á grundvelli þessarar úttektar hefur nú þegar verið lögð fram og samþykkt, þ.e. tillaga að nýju skipuriti.
Engum starfsmanni er sagt upp störfum í kjölfarið breytinganna en ljóst er að kostnaður vegna innleiðingar á breytingunum verður 27 milljónir króna á árinu 2023. Fyrst og fremst vegna ráðningar verkefnisstjóra í upplýsingatækni og vegna aukinna verkefna á fjármála- og áhættustýringarsviði. Á ársgrundvelli er gert ráð fyrir að um tvö stöðugildi sé að ræða og kostnaðurinn verði 35 milljónir kr.

Það er mat ráðgjafa Strategíu að talsverð tækifæri séu til sparnaðar á aðkeyptri þjónustu sem vegur þá upp á móti þeim kostnaðarauka sem liggur fyrir að felist í breytingunum.
Í fyrsta sinn í Mosfellsbæ er innri endurskoðun nú tilgreind sérstaklega í skipuriti og er það til bóta og í samræmi við nútímalegan rekstur sístækkandi sveitarfélags að þessu eftirliti sé tryggt skýrt hlutverk í skipuriti bæjarins.
Einnig er rétt að minnast á breytingu á fjármálasviði sem nú mun heita fjármál og áhættustýring. Í skýrslu Strategíu er fjallað um mikilvægi þess að bæjarfélagið setji sér skýra stefnu um fjármagnsskipan og áhættustefnu en hvorug er til staðar í dag.
Það er rauður þráður í gegnum skýrsluna að skýra þurfi hlutverk, umboð og ábyrgð stjórnareininga og stjórnenda og er nýja skipuritið fyrsta skrefið í átt að þessu takmarki.
Eins og fram hefur komið þá eru margar umbótatillögur í skýrslunni og nú bíður það verkefni bæjarstjórnar og bæjarstjóra að meta og ákveða hvað af þessum umbótaverkefnum verður ráðist í til að bæta þjónustu bæjarins við íbúa.

Lovísa Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi Viðreisnar