Stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra
Velferðarráðuneytið hefur samþykkt ósk Mosfellsbæjar um að stækka hjúkrunarheimilið Hamra um 44 rými og verða rými heimilisins þá alls 74. Stækkunin mun auka framboð á hjúkrunarrýmum auk þess að gera rekstrareininguna hagkvæmari. Undirbúningsvinna er þegar hafin í samvinnu ráðuneytisins og Mosfellsbæjar. Bæjarráð Mosfellsbæjar fagnar áformum um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra og er til viðræðna um að byggja hjúkrunarheimilið ef viðunandi samningur næst en leggur til að rekstur heimilisins verði á hendi ríkisins enda er það lögbundið verkefni ríkisins.
Bæjarráð fól bæjarstjóra áframhaldandi viðræður við ríkið. Lögbundið er að sveitarfélög greiða 15% af stofnkostnaði hjúkrunarheimila en ríkið 85%. Hjúkrunarheimilið Hamrar var vígt 27. júní 2013. Þar eru 30 einstaklingsíbúðir en heimilið er 2.250 fermetrar. Hamrar eru á sama stað og öryggisíbúðir og þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara.