Hugmyndasöfnun hafin fyrir Okkar Mosó 2019

okkarm

Útivistarparadís á Stekkjarflöt hlaut flest atkvæði í Okkar Mosó árið 2017. Strandblakvöllur var meðal þess sem var framkvæmt á svæðinu.

Nú stendur yfir hugmyndasöfnun vegna Okkar Mosó 2019 sem er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Verkefnið byggir m.a. á þeim áherslum sem settar eru í lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar um samráð og íbúakosningar þar sem leitast skal við að hafa samráð við íbúa og hagsmunaaðila áður en ákvarðanir eru teknar í mikilvægum málefnum er varða hagsmuni þeirra. Einnig er markmið verkefnisins að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði.

Allt að 35 milljónir í pottinum
Okkar Mosó 2019 byggist á þeirri reynslu sem skapaðist í sambærilegu verkefni á árinu 2017 auk þess að byggja á reynslu annarra borga og bæja hérlendis og erlendis.
Gert er ráð fyrir að verja allt að 35 milljónum króna til framkvæmda á þeim hugmyndum að verkefnum sem hljóta brautargengi í kosningum sem fara fram dagana 17.– 28. maí.
Sem fyrr verður Mosfellsbær allur eitt svæði í hugmyndasöfnun og kosningu. Við úrvinnslu hugmynda verður hins vegar leitast við að tryggja að þau verkefni sem kosið verður um séu landfræðilega dreifð innan sveitarfélagsins.

Óskað eftir frumlegum hugmyndum
Óskað er eftir hugmyndum frá íbúum um smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefni í Mosfellsbæ til að kjósa um í íbúakosningu. Hugmyndin verður að falla að stefnu bæjarins og getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðrar stofnanir eða sveitarfélag.
Sérstaklega er hvatt til þess að þátttakendur setji fram frumlegar hugmyndir eða nýja nálgun við þekkt viðfangsefni. Hugmyndir geta t.d. varðað umhverfið almennt og möguleika til útivistar og samveru, s.s. bekkir, gróður, útilistaverk og fegrun. Bætta lýðheilsu þ.e. aðstöðu til leikja eða afþreyingar, s.s. að bæta leiksvæði og endurnýja leiktæki. Vistvænar samgöngur þ.e. betri aðstöðu til göngu, hjólreiða og notkun almenningssamgangna, s.s. stígatengingar, lýsingu og lagfæringu gönguleiða.

Greinargóð lýsing æskileg
Hugmyndir að verkefnum þurfa að mæta eftirfarandi skilyrðum til að eiga möguleika á að verða sett í kosningu:
• Nýtist hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
• Vera til fjárfestinga en ekki rekstrar.
• Vera framkvæmanleg án mjög flókins undirbúnings.
• Varða umhverfi á bæjarlandi en ekki á landi í einkaeigu.
• Líftími fjárfestingar skal vera að lágmarki fimm ár.
• Falla að skipulagi Mosfellsbæjar og stefnu, sé í verkahring sveitarfélagsins og á landi í eigu þess.
Hugmyndin þarf að vera framkvæmanleg, skýr og lýsandi, þannig að aðrir eigi auðvelt með að átta sig á því sem um er að ræða. Koma þarf fram um hvað verkefnið snýst og hvar nákvæm staðsetning er. Greinargóð lýsing auðveldar mat og hvort hugmynd nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu.