Liðsstyrkur fyrir komandi tímabil

Einar Ingi, Birkir, Arnór og Gunnar verða áfram í herbúðum Aftureldingar

Birkir Benediktson, Einar Ingi Hrafnsson, Arnór Freyr Stefánsson og Gunnar Malmquist hafa allir framlengt samninga sína við handknattleikslið Aftureldingar. Allir hafa þeir verið lykilmenn í liðinu síðustu ár.
Birkir og Einar Ingi eru uppaldir Mosfellingar og er Gunni Mall að hefja sitt sjöunda tímabil í Aftureldingu. Arnór Freyr kom til Aftureldingar árið 2018 eftir að hafa spilað með Randers í Danmörku. Þetta eru frábærar fréttir og mikilvægir hlekkir í liði Aftureldingar.

Nýtt þjálfarateymi Aftureldingar
Eins og áður hefur komið fram hefur Afturelding samið við Gunnar Magnússon um að taka við liði Aftureldingar fyrir næsta tímabil.
Gunnar er margreyndur og sigursæll þjálfari. Hann hefur þjálfað Víking, HK, ÍBV og Hauka auk þess að vera aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins. Hrannar Guðmundsson verður aðstoðarþjálfari meistaraflokks en hann kom heim síðasta sumar eftir þjálfun hjá ÍR síðustu tvö ár.
Afturelding hefur einnig ráðið Fannar Karvel sem styrktarþjálfara handknattleiksdeildarinnar. Fannar rekur líkamsræktarstöðina Spörtu á Höfða og þjálfar þar marga af fremstu íþróttamönnum landsins.

Nýir leikmenn til Aftureldingar
Afturelding hefur samið við sjö nýja leikmenn fyrir næsta tímabil. Bergvin Gíslason, Sveinn Andri Sveinsson og Þrándur Gíslason Roth koma frá ÍR. Blær Hinriksson kemur frá HK og Úlfar Monsi Þórðarson frá Stjörnunni. Einnig koma Bjarki Snær Jónsson og Hafsteinn Óli Ramos frá Fjölni.

Hrannar, Fannar og Gunnar funda á Grillmarkaðnum.

Allir þessir leikmenn hafa mikla reynslu úr Olís deildinni og munu styrkja Aftureldingarliðið mikið fyrir komandi tímabil.