Lifðu!

Við Vala erum að gefa út bók. Hún heitir Lifðu! og snýst um heilsu og hamingju. Bókin byggist á ferðalagi okkar um þau svæði heimsins þar sem langlífi og góð heilsa haldast hvað mest í hendur. COVID-19 var ekki komið til sögunnar þegar við vorum á ferðinni um þessi svæði í fyrra, en það hefur verið áhugavert ferli að klára bókarskrifin og koma í prent á sama tíma og vírusinn hefur farið sem eldur í sinu um heimsbyggðina.

Áhugavert að því leyti að það að fara í gegnum erfiða tíma sem einstaklingar, fjölskyldur og samfélög er eitt af því sem hefur lagt grunninn að langlífi og góðri heilsu á bláu svæðunum. Hér að neðan er sýnishorn úr bókinni sem snertir einmitt á þessu og sömuleiðis ein af þeim lykilhugleiðingum sem við setjum fram í bókinni.

Á Sardiníu og á bláu svæðunum almennt er borin virðing fyrir þeim eldri. Þeir hafa, eins og við bentum á í fyrsta kaflanum, tilgang. Hlutverk í lífinu. Skipta máli í samfélaginu og taka þátt í því. Það á sinn þátt í að sögur og reynsla miðlast milli kynslóða. Þær yngri læra af þeim eldri. Og svo öfugt.

Bláu svæðin eru ekki allsnægtasvæði. Á þeim öllum hafa íbúar þurft að takast á við alls konar áskoranir, þurft að hafa fyrir lífinu og því að komast af. Þetta hefur stuðlað að þessu dásamlega viðhorfi sem er ríkjandi á svæðunum. Blanda af seiglu, jafnaðargeði, þolinmæði og húmor.

Fólk veit að það mun komast í gegnum erfiða tíma – fyrri kynslóðir hafa gert það. Það er þakklátt fyrir það sem það hefur og veit að það er mikilvægt að hlæja mikið og njóta lífsins með fjölskyldu, vinum og öðrum sem mynda samfélagið.

Hugleiðing um viðhorf: Veltu fyrir þér hvað þú getur gert í dag til að gleðja aðra.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 25. júní 2020