Sorgarferlið ansi flókið

Anan Lilja Marteinsdóttir og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir.

Vinkonurnar Anna Lilja Marteinsdóttir og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir eiga margt sameiginlegt. Þær heita báðar Anna, eru þrítugar, búa í Mosó, og búa báðar yfir þeirri reynslu að hafa misst maka sinn fyrir þrítugt. Þar af leiðandi hafa þær báðar verið nánasti aðstandandi þess sem missir.
Þær hafa verið vinkonur frá sextán ára aldri og fylgst að síðan þá. Á dögunum opnuðu þær vefsíðuna Tilstaðar.is þar sem hægt er að kaupa eins konar samúðargjöf eða box með litlum glaðningi fyrir þá sem eiga um sárt að binda.

Ómetanlegur vinskapur
„Vinskapur okkar er ómetanlegur og eins og við segjum oft, hefðum við ekki getað ímyndað okkur þegar við kynntumst 16 ára að við ættum eftir að vera í þessum sporum um þrítugt.
Ég missi minn maka skyndilega 2013 þá 23 ára gömul sem var mikið áfall. Ég var þarna að takast á við mikla sorg og í raun vissu vinkonur mínar ekki hvernig þær ættu að nálgast mig og margar af þeim að missa góðan vin. Hvað þær ættu að segja og hvað þær ættu að gera,“ segir Anna Sigga.

Fyrstu mánuðirnir í móðu
„Á þessum tíma voru ég og Jói maðurinn minn að reka Hvíta Riddarann og Anna Sigga og Þórhallur að vinna þar og við í miklum samskiptum bæði innan sem utan vinnustaðarins.
Þarna var ég í raun að upplifa mitt stærsta áfall í lífinu að missa góðan vin og reyna að vera til staðar fyrir Önnu Siggu. Þegar ég svo missi minn maka þá var mín fyrsta hugsun að leita til hennar. Ég fann það strax að hennar reynsla, eins hræðileg og hún var þá, hjálpaði mér að komast í gegnum fyrstu dagana. Fyrstu mánuðirnir eftir svona áfall eru í einhvers konar móðu en þegar frá líður þá er það algengt að fólk verði svolítið leitandi eftir einhvers konar þekkingu á sorgarferlinu,“ segir Anna Lilja.
Hún bætir við að hún hefði skilið betur stöðu aðstandenda með að vita lítið um það hvernig best væri að vera til staðar fyrir hana þegar sem hún hafði verið í þessum sporum þegar Anna Sigga missti sinn maka.

Dagarnir misjafnir
Þær segja ótrúlega dýrmætt að eiga hvora aðra að, þær leita til hvor annarrar um ráð og ræða mikið saman um sorgina og það að halda áfram með lífið. Þær segja sorgarferlið vera ansi flókið og dagarnir misjafnir, sumir ósköp venjulegir en aðrir svo erfiðir að þeir virðast óyfirstíganlegir.
„Við erum kannski búnar að eiga langt spjall og furðum okkur á því að vera tala um hluti sem þrítugar vinkonur ættu ekki að þurfa að ræða. En út frá öllum þessum samtölum og pælingum okkar kviknaði þessi hugmynd að boxunum því að við skynjum að fólk vill vera til staðar fyrir okkur en veit ekki hvernig.
Hugmyndin er að aðstandandi, vinahópur eða vinnufélagar geti keypt gjöf sem við sendum beint á viðtakanda. Gjöfin inniheldur fjögur lítil box með fallegum skilaboðum og litlum gjöfum sem allar eiga að stuðla að vellíðan,“ segja þær.

Að vera til staðar
„Þegar viðtakandi opnar boxið blasa við falleg skilaboð og hugmyndin er að þegar ástvinurinn á erfiða stund geti hann opnað einn kassa. Við vorum lengi að semja skilaboðin og vorum sammála um að syrgjandi þarf ekki á óvelkominni jákvæðni eða einhverju pirrandi peppi að halda heldur meira svona að þér má líða svona og það sé eðlilegt,“ segir Anna Sigga.
„Okkar saga er frávik, lífið á ekki að vera svona og við erum engir sérfræðingar eða með menntun á þessu sviði. Þetta er einungis framtak sem sprottið er af þessari sameiginlegu reynslu okkar og við teljum að vanti á markaðinn. Það er gott að geta miðlað okkar reynslu öðrum til góða,“ segir Anna Lilja að lokum og bendir á að auk heimasíðunnar Tilstaðar.is séu þær á Facebook og Instagram þar sem þær eru með bæði góð ráð og fræðslu.