Söfnuðu sér fyrir sumarbúðum í Bandaríkjunum
Fyrir um ári síðan ákváðu fjórir strákar úr Mosó að reyna að komast inn í BMX sumarbúðir til Bandaríkjanna. Þetta eru þeir Guðgeir, Hlynur, Kristján og Tjörvi.
Fóru þeir af stað með söfnun og gengu í hús í Mosfellsbæ. Þeir söfnuðu dósum, seldu klósettpappír og sælgæti.
Ferðin varð svo að veruleika strax eftir skólaslitin í vor. Flogið var til New York og þaðan farið til Woodward í Pennsylvaníu.
Í Woodward er aðstaða til BMX iðkunar eins og best verður á kosið. Strákarnir fengu góða kennslu, eignuðust fullt af nýjum vinum og nutu lífsins í botn. Þeir vilja koma á framfæri kærum þökkum til allra Mosfellinga sem tóku vel á móti þeim í vetur, keyptu af þeim varning eða gáfu dósir. Og auðvitað þeim sem styrktu með öðrum hætti.
Um leið vilja þeir skora á bæjarstjórn Mosfellsbæjar að setja upp góða aðstöðu í bænum til BMX iðkunar.