Áfram Ísland!

heilsumolar_gaua_23juni

Fátt er betra fyrir heilsuna en samvera með jákvæðu fólki. Á sama hátt og fátt er verra fyrir heilsuna en mikil samvera með leiðinlegu fólki. Ég fór í þriggja daga æfingaferð með frábæru fólki núna í júní. Það gaf mér mikið, bæði líkamlega og andlega, og ég kom endurnærður heim.

Þessi ferð var tilraunaferð. Hugmyndin var að tengja saman fjölbreyttar æfingar, útiveru, gott veður (pantað með löngum fyrirvara), lifandi landslag, jákvætt fólk, góðan mat og hæfilegar áskoranir af ýmsu tagi. Mér fannst þetta takast frábærlega og hlakka mikið til næstu ferðar.

Íslendingar eru að upplagi jákvætt fólk. Okkur líður best þegar við getum sameinast um eitthvað skemmtilegt og spennandi. EM í fótbolta er skýrt dæmi. Stór hluti þjóðarinnar fór til Frakklands og allar fréttir af okkar fólki eru jákvæðar. Enginn með vesen, allir brosandi og kátir, að njóta þess að vera til. Þetta smitar út frá sér til okkar sem erum heima. Við samgleðjumst með þeim sem eru úti og fjarstyðjum strákana til dáða.

Það hlustar enginn á Útvarp Sögu þessar vikurnar og enginn nennir að velta sér upp úr lúalegum kosningabrögðum, það tekur enginn eftir þeim þannig að menn geta alveg eins hætt að reyna. Ég legg til að við höldum fast í þessa jákvæðni að EM loknu. Pössum okkur á að detta ekki í neikvæðu gildrurnar þegar þær laumast upp að okkur. Pössum okkur á neikvæða fólkinu. Þeim fáu sem þrífast best í eymd og volæði og engjast um eins og ormar á öngli þegar allir jákvæðu EM straumarnir fljóta á milli Íslendinga.

Við höfum margt að vera þakklátir fyrir, Íslendingar, landið, miðin, tækifærin, hvert annað. Því jákvæðari sem við erum í hugsun og samskiptum, því lengra komumst við í því sem við fáumst við í okkar daglega lífi. Og því betur líður okkur öllum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. júní 2016