Söfnuðu fyrir fjórum útivistarhjólastólum
Reykjadalur fékk á dögunum afhenta fjóra nýja útivistarhjólastóla sem safnað var fyrir á góðgerðargolfmótinu Palla Open sem Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Palli Líndal stóðu fyrir.
Mótið gekk vonum framan og var eitt það fjölmennasta sem haldið var á suðvesturhorninu í sumar. Alls söfnuðust 2,5 milljónir króna í tengslum við mótið sem hefur verið varið í kaup á útivistarhjólastólunum.
Stærsta opna mót sumarsins
Mótið var nú haldið í annað sinn á Hlíðavelli en Golfklúbbur Mosfellsbæjar lánar aðstöðuna og sér um umgjörð mótsins án nokkurrar þóknunar.
„Þetta er stærsta opna mótið sem við höldum í dag, rétt rúmlega 200 þátttakendur þannig að það er mikið líf og fjör á vellinum og því mikið sem þarf að huga að. Starfsmenn klúbbsins sem og sjálfboðaliðar sinna þeim störfum með mikilli prýði,“ segir Ágúst Jensson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar.
Frá hugmynd að veruleika
„Hugmyndir mínar og golfklúbbsins fara mjög vel saman, við viljum styrkja okkar nærumhverfi í Mosfellsbæ í samstarfi við félagsmenn klúbbsins,“ segir Páll Líndal. Við viljum sýna samfélagslega ábyrgð í verkum okkar og hugmyndum. Ég er mjög stoltur í hjarta mínu yfir þessu verkefni og ég er stoltur af því að vera félagsmaður í Golfklúbb Mosfellsbæjar.
Ekkert svona verkefni getur orðið að veruleika nema með aðstoð og styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Ég vil þakka öllum þessum aðilum fyrir þeirra framlag og styrki,“ segir Palli.