Snjallar lausnir og betri þjónusta í skólamálum
Skólamálin eru einn mikilvægasti málaflokkur Mosfellsbæjar og hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna ávallt lagt mikla áherslu á málaflokkinn ásamt því að auka og bæta þjónustu við barnafjölskyldur.
Í málefnasamningi flokkanna tveggja stendur m.a. að fjölga eigi plássum á ungbarnadeildum þannig að fleiri 12 mánaða gömul börn fái leikskólapláss á kjörtímabilinu, að lækka skuli leikskólagjöld og halda áfram að bæta upplýsingatæknimál skólanna. Einnig kemur fram í málefnasamningnum að endurbæta eigi skólahúsnæði, bæði ytra byrði húsanna og vinnuaðstöðu kennara og nemenda. Við þetta hefur verið staðið og áfram höldum við að gera góðan bæ enn betri.
Mikið átak hefur verið gert í upplýsingatæknimálum í grunnskólum og lengri sumarfrístund fyrir nemendur sem hefja skólagöngu í Varmárskóla og Lágafellsskóla er nýjasta viðbótin við bætta þjónustu við barnafjölskyldur í Mosfellsbæ.
Snjallir skólar
Árið 2019 hófst mikil umbótavinna varðandi upplýsingatæknimálin í grunnskólum bæjarins og í framhaldi af þeirri vinnu var gerð áætlun um tækjakaup til rafrænna kennsluhátta. Allir nemendur hafa nú aðgang að svokölluðum Krómbókum og spjaldtölvum og aukast nú tækifæri til að vinna að verkefnum með rafrænum hætti.
Gerður hefur verið samningur um Seesaw aðgang fyrir alla nemendur í 1.-6. bekk og kennara þeirra en það eru rafrænar ferilmöppur sem einfalda kennurum, nemendum og foreldrum að fylgjast með náminu. Nemendur á unglingastigi vinna með Google for Education eða rafræna kennslustofu. Útdeiling á Krómbókum og spjaldtölvum miðaði við stöðu tækjaeignar í hverjum skóla og þess gætt að tækjakostur sé nú sambærilegur milli grunnskólanna.
Upplýsingateymi kennara og stjórnenda eru í skólunum og ráðinn hefur verið verkefnastjóri til að hafa yfirumsjón með upplýsingatæknimálum og búnaði. Skólarnir eru nú mun betur settir með að undirbúa nemendur fyrir framtíðina en tækniþróun er hröð og óhætt að segja að framtíðin er núna. Skólaþróun í Mosfellsbæ heldur áfram og eru þetta stór skref sem stigin hafa verið í rétta átt.
Sumarfrístund fyrir 6 ára börn
Frá 9.–20. ágúst næstkomandi verður boðið upp á Sumarfrístund fyrir sex ára börn í Varmárskóla og Lágafellsskóla. Sumarfrístund er eins konar skólaaðlögun fyrir sex ára börn sem eru að hefja skólagöngu og fá þau í sumarfrístund að kynnast betur skólahúsnæðinu og skólalóð. Með sumarfrístund er komið á móts við þarfir margar fjölskyldna þegar sumarfríum er að ljúka og skólarnir að hefjast. Það getur verið krefjandi tími í lífi barnafjölskyldna.
Árið 2019 var í fyrsta sinn boðið upp á sumarfrístund og var sú þjónusta í boði viku fyrir skólabyrjun. Sama fyrirkomulag var árið 2020 og þá einnig fyrir 2. bekk. Þetta fyrirkomulag mæltist vel fyrir hjá þeim foreldrum sem nýttu þjónustuna og hefur verður aukið við framboðið og einni viku bætt framan við. Sú vika kemur í stað námskeiðsviku hjá íþrótta- og tómstundaskólanum.
Barnvænt samfélag
Markmið Mosfellsbæjar er að leita sífellt leiða til að auka og bæta þjónustu við bæjarbúa. Mosfellsbær hefur laðað til sín barnafjölskyldur og leggur ríka áherslu á að mæta á sem bestan og fjölbreyttasta hátt þeim fjölskyldum sem á þjónustu bæjarfélagsins þurfa á að halda.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar