89% nýttu sér frístundaávísunina – við getum gert betur

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Frá árinu 2010 hefur Mosfellsbær greitt út tæplega 165 milljónir króna í frístundaávísanir til handa börnum og unglingum á aldrinum 6-18 ára í Mosfellsbæ.
Á árinu 2015-2016 var 89% nýting á frístundaávísunum, sem er mesta hlutfall ávísana sem nýtt hefur verið til þessa í Mosfellsbæ. Betur má en duga skal, markmiðið hjá Íþrótta og tómstundanefnd Mosfellsbæjar er að öll börn í Mosfellsbæ sem stunda einhverja frístund nýti sér ávísanirnar.
Nú er nýtt frístundaávísanatímabil að hefast í Mosfellsbæ. Gerðar voru breytingar á úthlutunarreglum sem veita barnmörgum fjölskyldum möguleika á hærri styrk til úthlutunar. Samhliða breytingum á úthlutunarreglum var tekin ákvörðun um að taka upp notkun á Frístundakerfi tengt Nóra til að halda utan um úthlutun frístundaávísana.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti í fjárhagsáætlun 2016 síðastliðið haust að frístundaávísun hækki sérstaklega fyrir barnmargar fjölskyldur. Frístundaávísun fyrir fyrsta barn verður eftir sem áður 27.500 kr. en breytingin felur í sér að heildar upphæð frístundaávísunar hækkar um 25% við annað barn og aftur um 25% við þriðja barn. Þegar foreldri sækir um frístundaávísun á íbúagátt/hjá félagi kemur hækkun á upphæð ávísunar sjálfkrafa fram eftir fjölda barna sem skráð eru með sama lögheimili hjá foreldri.
Skráningar eru nú hafnar hjá flestum félögum fyrir tímabilið 2016-2017 og er hægt að skrá sitt barn í gegnum íbúagáttina á www.mos.is. Ég vek athygli á því að barn sem á rétt á frístundarávísun þarf ekki endilega að stunda sína frístund í Mosfellsbæ.

Rúnar Bragi Guðlaugsson.
Formaður íþrótta- og tómstundanefndar Mosfellsbæjar.