Skólarnir okkar

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Samfylkingin vill skóla í fremstu röð fyrir börnin í Mosfellsbæ og að allir nemendur fái tækifæri til að þroska hæfileika sína og blómstra.
Skólinn gegnir afar mikilvægu hlutverki í að undirbúa börn og ungmenni undir þátttöku í margbreytilegu lýðræðissamfélagi og því þarf að búa þannig að skólunum að þeir hafi nægt bolmagn til að sinna verkefni sínu af alúð. Endurskoðun skólastefnu bæjarins sem samþykkt var 2010 er löngu tímabær.

Stuðningur og samstarf
Samfylkingin leggur áherslu á að styrkja starfsumhverfi kennara með því að auka aðgengi að sérhæfðu starfsfólki á ýmsum fagsviðum. Þannig er hægt að mynda öflug og samstíga teymi svo auðveldara verði að mæta ólíkum þörfum nemenda. Stuðningur við börn á að miðast við þarfir þeirra en ekki að vera háður læknisfræðilegum greiningum. Námsframboð og skipulag þarf að vera sveigjanlegt. Efla þarf samstarf á milli skóla, skólastiga og allra þeirra aðila sem sinna tómstundum og menntun barna og ungmenna til að sem best samfella sé í vinnudegi barna og aðstæður fullnægjandi. Þá er nauðsynlegt að hugað sé tímanlega að uppbyggingu skólamannvirkja svo skólar verði ekki of stórir. Að eiga stærstu skóla landsins á ekki að vera markmið sveitarfélagsins.

Steinunn Dögg Steinsen

Steinunn Dögg Steinsen

Fleiri leikskólakennara
Nauðsynlegt er að fjölga leikskólakennurum í leikskólum bæjarins og þar á bærinn að stíga myndarlega inn með stuðningi við starfsfólk sem vill sækja sér frekari menntun. Þetta má gera með því að auka við stöðugildi á leikskólum til að koma til móts við fjarveru vegna skólasóknar starfsfólks. Til þessa hefur sveitafélagið ekki staðið sig nógu vel í að styðja ófaglærða starfsmenn leikskóla á þessu sviði. Þar vill Samfylkingin gera mun betur.

Leikskóli fyrir 12 mánaða
Samfylkingin vill að öll 12 mánaða börn fái leikskólavist. Óvissa um dagvistunarúrræði barna er óásættanlegt fyrir foreldra og samfélagið. Þá er mikilvægt að þeirri lækkun leikskólagjalda sem Samfylkingin fékk samþykkta í bæjarstjórn verði viðhaldið og að gjöldin verði áfram sambærileg við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Við viljum búa vel að barnafjölskyldum og gæta þess að þjónustan í okkar góða bæ sé ekki síðri eða dýrari en annars staðar.

Listaskólinn
Listaskólinn gegnir ákaflega mikilvægu hlutverki í bæjarlífinu. Samfylkingin vill að á næsta kjörtímabili verði unnið markvisst að því að skapa Listaskólanum framtíðar­aðstöðu svo hann geti vaxið og dafnað með stækkandi sveitarfélagi og sinnt áfram þeirri mikilvægu kennslu og menningaruppeldi sem honum er falið.

Samfylkingin telur mikilvægt að setja málefni barna í fyrsta sætið. Ef þú er sammála þá setur þú x við S á kjördag 26. maí.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar.
Steinunn Dögg Steinsen, varabæjarfulltrúi, skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar.