Skipulagsmál á mannamáli
Orð eins og íbúalýðræði, þátttaka almennings og upplýsingaflæði eru mikið notuð og eru mjög jákvæð. En eru þetta bara orð sem notuð eru á tyllidögum? Sett í stefnuskrá og notuð af stjórnmálafólki sem sækist eftir atkvæðum?
Oft er það þannig en núverandi meirihluti D- og V lista hafa lagt áherslu á þessa þætti í skipulagsmálum sveitarfélagsins undanfarin ár. Við viljum gera enn betur á komandi kjörtímabili. En hvernig getum við aukið áhuga almennings enn frekar á t.d. skipulagsmálum?
Í nýlegri rannsókn sem gerð var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og fjallaði um samráð við almenning um skipulagsmál kemur margt áhugavert fram. Þar kemur fram að fólk eldra en fimmtugt er virkast og auðveldast að ná til þeirra en erfiðast er að ná til ungs barnafólks.
Fagaðilar voru margir hverjir sammála um að ungt fólk væri sá hópur sem einna eftirsóknarverðast er að eiga í samtali við um skipulags- og framkvæmdamál, því yngri kynslóðin væri oft opnari en þeir sem eldri eru. Hún væri oftar tilbúnari til að hlusta á rök en fólk á öðrum aldursskeiðum. Þá hefði ungt fólk margt mikilvægt til málanna að leggja. (Guðný Gústafsdóttir, Stefán Þór Gunnarsson og Ásdís A. Arnalds (2021). Samráð við almenning um skipulagsmál. Reykjavík: Félagvísindastofnun Háskóla Íslands).
Til að vekja áhuga almennings á m.a. skipulagsmálum þarf að setja efni fram á þann hátt að bæði sé auðvelt að sækja og skilja upplýsingar sem settar eru fram. Flestir hafa áhuga á því hvað framkvæmdir og skipulag hafa á sitt nærumhverfi.
Við á lista Sjálfstæðisflokksins viljum bæta enn frekar upplýsingaflæðið, setja upplýsingar um skipulag, verklegar framkvæmdir o.þ.h. fram á nútímalegan hátt og á „mannamáli“ til að auka áhuga og athygli fólks á þessum málum. Það skilar sér vonandi í meiri þátttöku almennings sem leiðir til meiri sáttar um bæjarmálin.
Hjörtur Örn Arnarson
Höfundur skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar