Skarhólabraut í Mosfellsbæ

 

Sveinn Óskar Sigurðsson

Í gegnum árin hefur verið fjallað á margvíslegan þátt um stytting einn hér í Mosfellsbæ sem ber heitið Skarhólabraut sem liggur frá Vesturlandsvegi, fram hjá slökkvistöðinni í bænum, upp með Úlfarsfellinu og yfir í Reykjahverfi.
Fallegt íbúðahverfi hefur mótast á þessu svæði og þar er að finna göturnar Aðaltún, Lækjartún, Hamratún, Hlíðartún og Grænumýri. Steinsnar þar hjá er iðnaðarhverfið við Flugumýri og Desjamýri.
Auglýst hefur verið deiliskipulag á svæðinu. Íbúum og fjárfestum hefur verið kynnt það ítrekað þegar á að fjárfesta á svæðinu og við önnur tilefni. Finna má deiliskipulagið á kortavef Mosfellsbæjar og þar sagt að það hafi verið samþykkt í bæjarstjórn 12. mars 2008 og er því nýlega orðið 14 ára gamalt. Það er önnur saga og óljós.
Eftir stendur undirritað skjal af þáverandi bæjarritara Mosfellsbæjar sem liggur á kortavef bæjarins og hefur ítrekað verið kynnt, t.a.m. í október 2007 í auglýsingu í Morgunblaðinu, þá sem „skematísk“ mynd, þar sem auglýstar voru atvinnuhúsnæðislóðir. Var myndin af Skarhólabrautinni eins og framangreint deiliskipulag gerir ráð fyrir, þ.e. með eyjum og öllu tilheyrandi.
Síðan eru þær lóðir allar seldar og búið að byggja á þeim, starfsemi einnig hafin. En Skarhólabrautin hefur vart tekið nokkrum breytingum og alls ekki í samræmi við það deiliskipulag sem kynnt hefur verið og liggur enn á kortavef bæjarins.
Frábær fyrirtæki eru á þessu svæði þar sem Skarhólabraut liggur um. Þar eru starfandi aðilar sem hafa metnað og vilja búa í góðri sátt við alla í bæjarfélaginu og umhverfið sitt. Enn er verið að selja lóðir upp með allri Desjamýrinni og umferðin um svæðið eykst.
Stórvirkar vinnuvélar eru á förum þarna fram og til baka og stórir flutningabílar fara þarna um sem þarf að þjónusta í einu stærsta og metnaðarfyllsta bifreiðaverkstæði landsins sem er komið á svæðið.
Íbúarnir á svæðinu þurfa að þola ágang þessara tækja illu heilli því Skarahólabrautin, sem á að beina umferð inn á iðnaðarsvæðið og fram hjá íbúabyggð, hefur ekki verið fullunnin. Skarhólabraut er illa fær bæði stórum og minni ökutækjum. Vegna þessa aka þessi tæki fremur um Flugumýri og fram hjá íbúðarbyggðinni þar. Þetta boðar ekki gott.
Í greinum að undanförnu hef ég fjallað um brotin loforð meirihlutans í Mosfellsbæ. Má þar m.a. finna brot á eigin málefnasamningi þessa meirihluta. Þar er af nógu að taka. Skarhólabrautin átti að hafa verið komin í gagnið fyrir margt löngu. Hvað tefur? Þetta snýr ekki aðeins að þjónustu við þá sem hafa þarna fjárfest heldur einnig að öryggismálum, loftslagsmálum og loforðum sem þessum aðilum hafa verið gefin sem þarna starfa og búa.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ.