Er gott að vera eldri borgari í Mosó?

Kolbrún Jónsdóttir

Í sumar eru fyrirhugaðar miklar byggingaframkvæmdir að Eirhömrum og Hömrum í Mosfellsbæ. Sennilega hefjast þessar framkvæmdir í júlí, jafnvel fyrr.
Það á að byrja á að byggja tengibyggingu ofan á elstu og best byggðu eininguna á Eirhömrum. Í þessari einingu eru 6 íbúar í jafn mörgum íbúðum og okkur hefur verið gert að flytja út, tæma íbúðirnar alveg. Þessar framkvæmdir geta tekið ca. tvö ár, en Eir segist munu sjá um flutninginn og útvega okkur íbúðir á þeirra vegum, enginn kostnaður af okkar hálfu, bara ótrúlega mikil fyrirhöfn. Ef við flytjum í dýrari íbúð en þá sem við erum í, þá borgum við ekki meira fyrir þá íbúð, en samt bara meðan á framkvæmdum stendur.

Fyrirhugað er að byggja 4-5 hæða blokk við Bjarkarholt, samtals um 100 íbúðir, síðan á að byggja nokkrar hæðir ofan á Hamra. Á meðan verðum við sexmenningarnir annars staðar, kannski á Eirhömrum, Eirborgum, í Spönginni eða Eir í Grafarvogi. Hljómar spennandi …?
Ég verð að viðurkenna að mér hrýs hugur við að fara að pakka niður þegar ég hef loksins klárað að koma mér fyrir hérna. Þegar ég flutti úr Miðholtinu eftir 24 ár, þá hélt ég að sá pakki væri búinn, en nei, aldeilis ekki.

En Mosfellsbær þarf ekki að hafa áhyggjur af okkur, bærinn er löngu búinn að afsala sér eldriborgararéttindum til Eirar. Við borgum mismunandi háa leigu til Eirar, td. er leigan fyrir 60 fermetra íbúð núna „aðeins“ 250 þús. á mánuði. Innifalið í því er rekstrargjald sem er mismunandi hátt eftir íbúðum.
Ljótt að segja það, en Mosfellsbær er ekki til staðar fyrir okkur. Því miður.

Ég vona að ég sé ekki að fara með neinar rangar staðreyndir í þessari litlu grein. Þetta er bara það sem okkur hefur verið sagt um áformin. Ég hef ekki verið í samráði við aðra sem þurfa að flytja.
Mér bara ofbýður.

Kolbrún Jónsdóttir