Sjálfsumhyggja

Berta Þórhalladóttir

Berta Þórhalladóttir

Stundum við nægja sjálfsumhyggju? Ég velti þessu fyrir mér þegar fyrirsagnir helstu fréttamiðla sýna að annar hver maður er í hættu á að kulna í starfi. Þá spyr maður hvað er eiginlega að gerast í samfélaginu.
Eru kröfunar of miklar í vinnunni, heima og eða á öllum vígstöðum sem okkur er ætlað að vera á? Eða erum við ef til vill sjálf að setja þessa pressu á okkur, að vera 100 prósent alls staðar? Hraðinn í samfélaginu er gífurlegur sérstaklega hérna á Íslandi, við erum miklar keppnismanneskjur, við viljum vel, erum hörkudugleg og ætlum oft á tíðum að sigra heiminn. Getur verið að við gleymum að gera það sem nærir okkur þegar við erum undir miklu álagi og höldum áfram á sjálfstýringunni þar til við brennum út? Hvað gerir þú til að næra þig andlega og líkamlega?
Mig langar að koma með nokkur einföld ráð sem geta verið gagnleg til að næra sjálfið.
1. Svefn, svefn og aftur svefn. Sefur þú nóg? Þá er ég að tala um 7–8 tíma á sólahring. Svefn er einn af grunnþáttum okkar. Ef við erum svefnvana í margar nætur þá hefur það ósjálfrátt áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Við sækjum meira í einföld kolvetni og koffín og úr því getur orðið svefnvana vítahringur.
2. Hlustar þú á hvernig þú talar við sjálfan þig? Talar þú til þín með jákvæðri rödd eða neikvæðri? Ef þú talar með neikvæðri reyndu þá að sýna þér mildi og svara sjálfum þér með jákvæðum tón til baka.
3. Skrifaðu niður þrjá hluti daglega sem þú ert þakklátur fyrir. Rannsóknir hafa sýnt að það að æfa þakklæti í nokkrar mínútur á dag hefur jákvæð áhrif á geðheilsuna.
4. Hugleiða – Gefðu þér 5 mínútur til að anda inn og út. Auðvelt er að ná sér í app í símann og þar er hægt að velja sér hugleiðslu með eða án leiðsagnar.
5. Finndu þér hreyfingu sem gefur þér orku – dansaðu, farðu í göngutúr eða í ræktina með góðum félögum.
Fyrir suma getur þetta hljómað mjög væmið og ef til vill asnalegt. En ég get þó sagt af eigin reynslu að ef þið tileinkið ykkur eitthvað af þessu hér að ofan þá mun það veita ykkur meiri vellíðan í lífi ykkar. Að lokum langaði mig til þess að segja ykkur frá því að ég er að fara taka við Súperform námskeiðinu í World Class Mosó og hefst það 4. mars.
Kærleikskveðjur.

Berta Þórhalladóttir
Kennir Tabata í World Class Mosó á þriðjudögum og fimmtudögum kl: 18:20