Eitt hundrað og þrjátíu ára afmæli!

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Næstkomandi sunnudag, 24. febrúar kl. 11, höldum við upp á 130 ára afmæli Lágafellskirkju með guðsþjónustu í kirkjunni og bjóðum í kirkjukaffi að athöfn lokinni í Safnaðarheimili Mosfellsprestakalls að Þverholti 3.
Frá þessum kristna helgistað verður af þessu tilefni horft til framtíðar. Hjá prédik­ara dagsins, Arnfríði Guðmundsdóttur prófessor í guðfræði, verða umhverfismál í öndvegi og framtíð okkar og komandi kynslóða. Diddú syngur ásamt kórnum okkar og Íris Torfadóttir og Selma Elísa Ólafsdóttir spila á fiðlu. Prestar og djákni safnaðarins, sr. Ragnheiður Jónsdóttir og sr. Arndís Linn Bernhardsdóttir og Rut G. Magnúsdóttir, þjóna fyrir altari og Þórður Sigurðarson organisti stjórnar söng og spilar undir. Komdu fagnandi!

Lágafellskirkja er að stofni til elsta hús í Mosfellsbæ. Þegar Mosfells- og Gufunessóknir voru sameinaðar 1888 var ákveðið að reisa kirkju á Lágafelli og taka niður kirkjurnar að Gufunesi og Mosfelli. Skáldsaga nóbelsskáldsins Halldórs Laxness, Innansveitakrónika, er skemmtileg lesning þar sem meðal annars er fjallað um þau átök sem áttu sér stað þegar þessi breyting var gerð.
Þegar Lágafellskirkja var vígð á konudegi 24. febrúar árið 1889 voru íbúar sóknarinnar 403. Sóknarmörk voru Elliðaár í suðri en Kollafjarðarkleifar í norðri, að austan réðu sýslumörk Kjósasýslu. Mikið vatn er runnið til sjávar frá þeim tíma. Sóknarbörnum hefur fjölgað margfalt og sóknarmörkin færð, svo eitthvað sé nefnt.
Um sögu Lágafellskirkju, bygginguna og breytingarnar sem hún hefur gengið í gegnum í áranna rás má m.a. lesa í „Kirkjur Íslands“, safn bóka gefið út af Þjóðminjasafni Íslands. Sagan væri engin ef ekki væri fólkið sem hefur verið og er til frásagnar. Lágafellskirkja, hús Guðs, hefur verið og er rammi utan um stærstu gleði- og hátíðastundir í lífi fólks og einnig sárustu sorgarstundir. Hér er nýju lífi fagnað og annað kvatt, Guð lofsunginn og færðar þakkir fyrir allt líf lifanda og liðinna. Lágafellskirkja er vegvísir í huga margra þar sem hún stendur á fellinu og minnir á það sem er stærra og meira en maðurinn sjálfur. Hún er skjólið og staðarprýðin fagra í Mosfellsbæ, ramminn utan um lifandi kirkjulíf.

Til hamingju kæru sóknarbörn með kirkjuna, Lágafellskirkju!
Fögnum og verum glöð!

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur.