Flugið togar endalaust í mig

sigurjon

Sigurjón Valsson flugrekstrarstjóri Air Atlanta Icelandic og formaður Íslenska flugsögufélagsins er mikill áhugamaður um flugsöguna og þekkir vel til sögu fyrstu flugvélarinnar sem kom til landsins. Sigurjón er vel þekktur innan fluggeirans enda búinn að fljúga frá því að hann var unglingur. Í dag stjórnar hann flugdeild Air Atlanta Icelandic sem sinnir flugi um allan heim.
Sigurjón hefur einnig brennandi áhuga á varðveislu flugsögunnar og hefur ansi mörg járn í eldinum hvað það varðar.

Sigurjón er fæddur á Selfossi 8. apríl 1973. Foreldrar hans eru Helga Sigurjónsdóttir og Valur Snorrason. Helga lést árið 2014. Sigurjón á þrjú systkini, Freyju fædda 1978, Snorra Jón fæddan 1979 og Fanneyju Guðrúnu fædda 1982.

Hveragerði hálfgerður smábær
„Foreldrar mínir bjuggu í Hveragerði þegar ég fæddist en fluttu svo að Hamars­hjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi. Þegar ég var fjögurra ára þá fluttum við aftur í Hveragerði og þar ólst ég upp.
Hveragerði var á þessum tíma hálfgerður smábær þar sem flestir bæjarbúar könnuðust hver við annan sem var kostur en á sama tíma stundum galli.“

Hugsaði um skjáturnar hans Sæmundar
„Það var ýmislegt brallað á æskuárunum. Ég var nánast alinn upp á hestbaki eða frá því ég gat setið hest þar til ég var 16 ára. Þá tók flugið algerlega yfir, og þá meina ég algerlega, því ég fór ekki á hestbak næstu 20 árin. Það er fyrst núna síðustu ár sem ég hef skroppið á bak en þá eingöngu til þess að fara í göngur.
Þar sem foreldrar mínir voru bæði úr sveit og héldu hesta kom það einhvern veginn til að faðir minn var fenginn til að hugsa um kindur samstarfsmanns síns í ullarþvottastöðinni í Hveragerði um hver jól, til fjölda ára. Þetta varð til þess að í mínum huga eru jólin í „gamla daga“ ­all­­taf tengd því að hugsa um skjáturnar hans Sæmundar í Brekku og það voru engin jól nema að stússast í þessu með pabba.“

Kenndi sjálfum sér að lesa
„Ég gekk í Grunnskóla Hveragerðis og síðan í Gagnfræðaskólann. Í upphafi skólagöngu minnar var lestur ekki mín sterka hlið og þegar ég var 9 ára var ég ekki búinn að ná sömu færni og jafnaldrarnir. Það var eflaust um að kenna „dassi“ af lesblindu ásamt fullt af þrjósku.
Ég var sendur í sérkennslu í lestri og fór sú kennsla fram á bókasafninu. Einn daginn mætti kennarinn ekki svo ég fór eitthvað að ráfa um á milli hillanna. Þá rakst ég á bók sem átti eftir að breyta öllu fyrir mig. Ég tók bókina úr hillunni og opnaði hana. Á fremstu síðu var teikning af mikilli loft­­­­­­­­­o­rr­ustu. Þessi teikning höfðaði til mín á einhvern hátt þannig að mér fannst ég þurfa að lesa það sem stæði í bókinni. Ég fékk hana lánaða, las hana og kenndi þannig sjálfum mér að lesa, alveg óvart. Bókin hét Haukur í hættu.“

Stalst til að fara í flugtíma
„Eftir að ég útskrifaðist úr gaggó lá leiðin í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Einn daginn eftir að ég var byrjaður í skólanum stalst ég til þess að taka flugtíma hjá flugskólanum Flugtaki og greiddi fyrir hann með peningum sem ég var búinn að safna mér.
Ég sagði foreldrum mínum ekki frá tímanum vegna þess að þau voru algjörlega á móti því að ég lærði að fljúga, sérstaklega mamma. Eftir að þetta upplýstist allt saman var samið um að ég fengi að halda áfram í náminu. Ég kláraði einkaflugmannsprófið samhliða náminu í fjölbraut en ég útskrifaðist árið 1993. Yfir sumartímann vann ég við túnþökutínslu á Núpum í Ölfusi.“

Dró línu í sandinn
„Ég var búin að hugsa mér að fara í verkfræði í HÍ því útlitið í atvinnuflugi var frekar dökkt. Á þessum tíma hafði varla verið ráðinn flugmaður til Flugleiða í fjöldamörg ár.
Flugið togaði samt í mig og á endanum ákvað ég að skella mér í atvinnuflugmennsku en var búinn að draga línu í sandinn. Ef ég yrði ekki kominn með vinnu sem flugmaður þegar ég yrði þrítugur þá biði verkfræðin mín. Ég fékk síðan atvinnuflugmanns- og kennararéttindi vorið 1995 og í ágúst sama ár var ég byrjaður að kenna hjá Flugtaki.
Ég flutti frá Hveragerði haustið 1996 en þá flutti ég í höfuðborgina til að sleppa við að keyra svona langt í vinnuna.“

Klúbbur stofnaður af áhugamönnum
Frá Flugtaki lá leið Sigurjóns til Íslandsflugs þar sem hann flaug á ATR-42, Do-228 og Boeing 737. Eftir sameiningu Íslandsflugs og Air Atlanta Icelandic hefur hann starfað sem flugstjóri og þjálfunarflug­stjóri en er í dag flugrekstrarstjóri félagsins. Hann hefur flogið sem listflugmaður frá árinu 1997, mest á TF-UFO.
Sigurjón var lengi vel formaður Flugklúbbs Mosfellsbæjar eða í 10 ár en klúbburinn er með aðsetur á Tungubakkaflugvelli. Klúbburinn var stofnaður 29. maí 1981 af 14 flugáhugamönnum. Á vellinum eru 7 flugskýli, um 20 vélar og klúbbhús félags­manna.
Sigurjón er giftur Lucíu Guðnýju Jörundsdóttur sjúkraliða og á hann þrjár stjúpdætur, þær Steinunni Mörtu, Hrafnhildi Völu og Önnu Kolbrá.

Markmiðið er að varðveita flugsöguna
„Ég byrjaði að stunda vinnukvöld hjá Íslenska Flugsögufélaginu þegar ég var unglingur. Áhugi minn á gömlum flugvélum kemur eflaust til af því að Haukur flugkappi sem ég las um í denn var alltaf að fljúga gömlum flugvélum úr seinna stríði.
Flugsögufélagið er félag sem var stofnað árið 1977 af áhugamönnum um flugsögu og markmið félagsins er að varðveita flugsögu Íslands. Við erum að safna hlutum sem koma flugsögunni við, allt frá hnífapörum upp í flugvélar, og við þiggjum alla hluti sem tengjast henni með þökkum. Félagið hefur jafnframt gert upp nokkrar flugvélar í gegnum tíðina.
Við erum ávallt með mörg járn í eldinum hjá Flugsögufélaginu og okkur vantar alltaf fleiri félaga til þess að leggja okkur lið við varðveislu flugsögunnar.“

Hundrað ára afmæli flugsins
Árið 1919 kom fyrsta flugvélin til landsins og var hún af gerðinni Avro 504K. Þessi tegund af vél var töluvert notuð í fyrri heimsstyrjöldinni og þótti henta ljómandi vel til flugkennslu. Árið 2015 var Hið íslenska Avrof­élag stofnað. Að baki því standa nokkrir af flugköppum nútímans en Sigurjón er formaður þess. Þeir félagar ætla að kaupa Avro 504 og sjá til þess að hún fljúgi á hundrað ára afmælisdegi flugsins á Íslandi, 3. september 2019.

Mosfellingurinn 28. september 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs