Blakdeildin gefur 2.300 endurskinsmerki

Skólastjórar taka við gjöfinni.

Í síðustu viku voru afhent um 2.300 endurskinsmerki til leik- og grunnskóla Mosfellsbæjar. Þessi merki eru með Aftureldingarmerkinu á og eru gefin börnum í tveimur efstu árgöngum í leikskólum bæjarins og öllum grunnskólabörnum.
Blakdeild Aftureldingar hefur leitað til fyrirtækja í Mosfellsbæ og nágrenni til að styrkja þetta þarfa verkefni og er ákaflega þakklát þeim fyrirtækjum sem sáu sér fært að vera með í þessu þarfa verkefni.

Börn og unglingar beri merkin stolt
Vonast deildin til þess að börn og unglingar í bænum beri merkin stolt og sjáist þar af leiðandi betur í umferðinni og á bílastæðum bæjarins nú þegar dagurinn fer að styttast meira og meira.
Skólastjórar Krikaskóla og Varmárskóla, þær Þrúður Hjelm og Jóna Benediktsdóttir veittu merkjunum viðtöku fyrir sína skóla að Varmá. Skólastjórar hinna skólanna áttu því miður ekki heimangengt en fengu merkin afhent í skólana sína.