Bættur tölvukostur í grunnskólunum Mosfellsbæjar

Tölvukostur í grunnskólum Mosfellsbæjar hefur verið stórbættur fyrir bæði nemendur og kennara.
Á síðustu tveimur árum hefur starfsumhverfi skóla verið stórbætt þegar kemur að upplýsinga- og tæknimálum. Nettengingar hafa verið endurnýjaðar í öllum leik- og grunnskólum og stjórnendur, kennarar og annað fagfólk fengið fartölvur til notkunar í sínum störfum. Þrír kerfisstjórar hafa nú umsjón með öllum leik- og grunnskólum og sérstök teymi starfa innan hvers skóla sem hafa það hlutverk að þróa nýja kennsluhætti og miðla þeim áfram.

Nýta tækni í námi og kennslu
Í vor og haust verður lögð áhersla á þróun kennsluhátta, eins og kynningu og fræðslu í notkun Google-umhverfis, spjaldtölvunotkun og hvernig megi nýta tækni almennt í námi og kennslu á sem fjölbreyttastan hátt.
Keyptar hafa verið spjaldtölvur sem eru ætlaðar nemendum í 1. – 6. bekk til afnota og nemendur í 7. – 10. bekk fá „Chromebooks“ tölvur til afnota.
Samhliða endurskoðun á skólastefnu Mosfellsbæjar er unnið að stefnumótun í upplýsingatækni skólanna til næstu ára. Nýr og bættur tækjakostur gefur óþrjótandi möguleika á þróun kennslu í takt við megin­áherslur aðalnámskrár grunnskóla.
Upplýsinga- og tæknimál eru mikilvæg í nútímaþjóðfélagi og er stefna Mosfellsbæjar að skólar bæjarins séu í fremstu röð hvað þau varðar.