Rjúfum félagslega einangrun saman
Undanfarið hefur farið fram töluverð umræða um einmanaleika og félagslega einangrun bæði á samfélagsmiðlum og í kjölfarið í fjölmiðlum. Fólk á öllum aldri hefur tjáð sig um að vera vinalaust og einmana og auglýsir jafnvel eftir vinum á Fésbókinni. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og margir hafa boðið fram aðstoð og vináttu svo að þeir sem tjáðu sig á samfélagsmiðlunum séu ekki einmana lengur.
Eitt af meginverkefnum Rauða krossins er að rjúfa einangrun fólks. Það er gert á ýmsan hátt, til að mynda með heimsóknum, opnum húsum og símavinum. Sjálfboðaliðar annast þessi verkefni með stuðningi frá starfsmönnum Rauða krossins. Heimsóknavinir fara í heimsóknir til fólks og spjalla við það, en tilgangurinn er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Stundum fara vinirnir í gönguferð, bíltúr eða gera eitthvað annað. Þá rekur Rauði krossinn hjálparsímann 1717 sem er alltaf opinn allan sólarhringinn alla daga ársins. Föt sem framlag, karlakaffi, vinahús og strákakaffi eru dæmi um hópa á vegum Rauða krossins þar sem ýmislegt skemmtilegt er haft fyrir stafni í góðum félagsskap. Eins eru reglulega opin hús fyrir flóttafólk og hælisleitendur.
Rauði krossinn í Mosfellsbæ er ein 42 deilda á Íslandi. Hjá deildinni er öflugur „Föt sem framlag“ prjónahópur sem hittist vikulega. Í heimanámsaðstoðinni er ekki bara verið að aðstoða við lærdóminn, það gefst líka tími til að spjalla og jafnvel spila eða fara í leiki á bókasafninu öðru hverju.
Heimsóknavinir heimsækja fólk í bænum okkar. Gönguvinir hittast tvisvar í viku og taka létta göngu og spjalla á leiðinni. Undanfarna mánuði hafa sjálfboðaliðar verið með byrjendakennslu í ensku fyrir hælisleitendur einu sinni í viku. Aðalmarkmið enskukennslunnar er að allir fari brosandi úr tíma og gildir það jafnt fyrir sjálfboðaliða og nemendurna. Í tímum eru grunnatriðin í ensku kennd en líka spjallað og stundum spilað á spil.
Ljóst er að fjöldi fólks á öllum aldri er félagslega einangrað. Ótal ástæður geta legið að baki en það er okkar samfélagsins að reyna að aðstoða og koma í veg fyrir einangrun. Við getum öll lagt okkar af mörkum til þess að hleypa birtu inn í líf annarra. Við þekkjum það öll að hlýja og nærvera, jafnvel bros frá ókunnugum getur gert daginn svo miklu betri.
Vantar þig félagsskap? Viltu veita félagsskap og taka þátt í verkefnum hjá Rauða krossinum? Lumar þú á góðri hugmynd um hvernig við getum dregið úr félagslegri einangrun í bænum okkar?
Við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ tökum vel á móti öllum sjálfboðaliðum og skjólstæðingum. Hafðu samband: hulda@redcross.is eða í síma 898 6065.
Hulda Margrét Rútsdóttir
verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ