Risa þorrablót Aftureldingar haldið 26. janúar
Þorrablót Aftureldingar 2019 fer fram laugardaginn 26. janúar í íþróttahúsinu að Varmá. Miðasala og borðaúthlutun fer fram föstudaginn 18. janúar á veitingastaðnum Blik. „Mikil stemning hefur myndast í forsölunni en eins og áður er eingöngu hægt að taka frá sæti gegn keyptum miða. Uppselt hefur verið á þorrablótið undanfarin ár. VIP borðin sem eru 10 manna hringborð eru komin í sölu en þeim fylgja fljótandi veigar og fleiri forréttindi,“ segir Ása Dagný nýkjörin vinnuþjarkur Aftureldingar og nefndarmaður í þorrablótsnefnd Aftureldingar.
Dagskráin verður með hefðbundnu sniði, Geiri í Kjötbúðinni sér um veislumatinn sem samanstendur af heitum og köldum þorramat ásamt heilgrilluðu lambalæri. Tríóið Kókos ábyrgist söng og almenna gleði og kynnir kvöldsins er Þorsteinn Hallgrímsson. Eurobandið með Regínu Ósk, Friðrik Ómar og Selmu Björns í fararbroddi leikur svo fyrir dansi fram á nótt. Blótið er stærsta fjáröflun barna og unglingastarfs handbolta- og knattspyrnudeildar Aftureldingar. Allar upplýsingar um blótið má finna á Facebook-síðu Þorrablóts Aftureldingar.