Reykjalundur stofnun ársins
Reykjalundur hlaut á dögunum titilinn Stofnun ársins 2017 samkvæmt árlegri könnun sem gerð er á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins í samstarfi við SFR og VR.
Á Reykjalundi fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Könnunin er framkvæmd af Gallup og nær til yfir 50 þúsund starfsmanna á almennum og opinberum vinnumarkaði. Könnunin gefur stjórnendum upplýsingar um hvað vel sé gert og hvað megi bæta frá sjónarhóli starfsfólksins. Þátttakendur eru spurðir út í ýmsa þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti.
„Þessi niðurstaða endurspeglar viðhorf til vinnustaðarins og nær til ýmissa samverkandi þátta. Þetta er mikil viðurkenning og staðfesting á að við erum á réttri leið,“ segir Birgir Gunnarsson forstjóri Reykjalundar.
Niðurstöðurnar voru kynntar miðvikudaginn 10. maí.