Ætlar að breiða út boðskapinn

beta_mosfellingurinn

Elísabet Jónsdóttir kennari fékk styrk frá Sprotasjóði til að búa til kennsluáætlun í markmiðasetningu fyrir unglinga.

Beta er algjör perla og er falleg bæði að utan sem innan. Hún er sannur vinur vina sinna og það er alltaf hægt að treysta á hana. Það er aldrei lognmolla í kringum hana, hún er mikill stuðbolti og ávallt þétt skipuð hjá henni dagskráin en hún hefur samt alltaf tíma fyrir mann til að spjalla eða aðstoða á einhvern hátt,“ segir Edda Davíðsdóttir æskuvinkona Betu er ég bið hana um að lýsa vinkonu sinni í stuttu máli.

Elísabet, eða Beta eins og hún er ávallt kölluð, fæddist í Reykjavík 30. maí 1969. Hún ólst upp í Varmadal en foreldrar hennar eru þau Hanna Sigurjónsdóttir og Jón Sverrir Jónsson vörubílsstjóri og verktaki.
Beta á þrjá bræður, þá Jón, Andrés og Björgvin. Andrés lést árið 1997.

Alltaf gaman að koma á Skálatún
„Andrés bróðir minn bjó á Skálatúni frá sjö ára aldri og frá því góða heimili á ég margar góðar minningar. Það var til dæmis alltaf gaman að vera þar á 17. júní, þá mættu fjölskyldur þeirra sem bjuggu þar og glöddust úti við hina ýmsu leiki og svo voru grillaðar pylsur.“

Átti farsæla og ánægjulega skólagöngu
„Ég gekk í Varmárskóla þar sem ég var svo heppin að hafa heimsins besta umsjónarkennara, hana Sigríði Johnsen, nær allan barnaskólann. Ég átti mjög farsæla og ánægjulega grunnskólagöngu umvafin góðum vinum sem enn halda hópinn.
Ferðamáti okkar unglinganna var með öðru sniði þá en gengur og gerist í dag, við vorum puttalingar ef við vorum ekki hjólandi.“

Vann hin ýmsu störf á unglingsárunum
„Eins og flestar stelpur þá byrjaði ég í vist ásamt því að vera í unglingavinnunni. Ég vann líka í sjoppu en síðan lá leiðin á Western Fried sem var kjúklingastaður í Þverholtinu. Þar vann ég með skóla og á sumrin í mörg ár hjá Ragga vini mínum Björns.
Að loknu grunnskólaprófi fór ég eins og við flest úr Mosfellssveitinni í Menntaskólann við Sund þar sem félagslífið og vinir áttu hug mig allan. Þar hætti ég svo eftir annað árið í einu af mörgum verkföllum sem þá voru en kláraði svo stúdentsprófið í Fjölbrautaskólanum við Ármúla.“

Hætti í bankanum og fór að kenna
„Eftir stúdentinn hóf ég störf hjá Íslandsbanka og það var þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir skólastjóri tók mig tali því henni fannst ég ekki vera á réttri hillu í lífinu, henni fannst ég fædd til að verða kennari. Sigríður Johnsen sem þá var aðstoðarskólastjóri í Varmárskóla var henni hjartanlega sammála svo úr varð að ég hætti í bankanum og fór að vinna hjá þeim báðum. Svo það má segja að það sé þeim stöllum að þakka að ég varð kennari og ég sé alls ekki eftir því,“ segir Beta brosandi.

Fluttu til Hollands
Beta kynntist eiginmanni sínum, Agli Sveinbirni Egilssyni, árið 1988 en þau höfðu þekkst í mörg ár enda bæði uppalin í Mosfellssveit. Þau eiga þrjú börn, Hönnu Lilju fædda 1991, Emmu Íren fædda 2000 og yngstur er Egill Sverrir fæddur 2004.
„Árið 1997 fluttum við fjölskyldan til Hollands. Egill fór í hönnunarnám við Hönnunarakademíuna í Eindhoven. Á meðan nýtti ég tímann og lærði hollensku ásamt því að taka eitt ár í innanhússhönnun og eignast miðjubarnið.
Við bjuggum úti í fjögur ár og eignuðumst marga góða vini þar. Að námi loknu stóð til að vera áfram í Hollandi en Agli bauðst gott starf á Íslandi svo við fluttum heim haustið 2001. Hann starfar í dag sem yfirhönnuður hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri.“

Njótum útivistar alla daga
„Áhugamál okkar hjóna og störf hafa einkennst af áhuga á fagumhverfi okkar og þróun þess í samfélaginu. Egill hefur starfað mikið við Hönnunarmiðstöð Íslands, Rannís og Listaháskólann en einnig stundað fjölbreytt kórastarf. Ég hef mikinn áhuga á menntamálum, börnum og ungmennum og þaðan er sú þörf sprottin að gera betur hjá þeim sem koma til með að skapa framtíð okkar. Ég er félagi í Rótarýklúbb Mosfellssveitar þar sem áhersla er lögð á mannúðarmál.
Við höfum byggt okkur heimili í Varmadal og þegar maður býr í svona náttúruperlu þá nýtur maður útivistar alla daga í nánd við náttúru og dýr.“

Hóf nám í markþjálfun
„Árið 2001 byrjaði ég að vinna sem leiðbeinandi í Lágafellsskóla, tók við kennslu í 1. bekk og hóf ári síðar nám í Kennaraháskólanum þaðan sem ég svo útskrifaðist sem grunnskólakennari.
Ég hef verið umsjónarkennari í nær öllum árgöngum ásamt því að vera deildarstjóri yngsta stigs um árabil. Undanfarin ár hef ég þróað lífsleiknikennslu á unglingastigi og kennt það af miklum áhuga.
Ég ákvað að bæta við mig þekkingu og hóf nám í markþjálfun sem ég lauk fyrir um ári síðan. Sú ákvörðun var afar farsæl fyrir mig sem manneskju og sem kennara. Í kjölfar námsins fékk ég styrk frá Sprotasjóði til að búa til kennsluáætlun í markmiðasetningu fyrir unglinga og bauð svo nemendum upp á að taka þetta í vali á síðustu önn.“

Tækifæri til að öðlast aukna ábyrgð
Kveikjan að því að sækja um þennan styrk var sú að ég sem lífsleiknikennari hef lengi talið vanta að ungmennum sé boðið upp á að læra að setja sér markmið. Mig langaði að þróa valáfanga sem gæfi nemendum tækifæri til að öðlast aukna ábyrgð með því að fara inn á við, kynnast sjálfum sér, skoða eigin styrkleika og áhugasvið og út frá því að gera það að vana sínum að setja sér sín eigin markmið.
Ég kenndi tveimur hópum af unglingum markmiðasetningu á vorönn og það var afar notalegt að finna að ánægjan með áfangann var mikil. Ég fékk tölvupósta frá foreldrum sem tjáðu mér ánægju sína með námið og sögðust sjá mikla og jákvæða breytingu á unglingnum sínum.
Það er einmitt svona uppskera sem gleður mann svo mikið þegar maður leggur sig fram um að sá, að ná árangri er svo hollt og hvetjandi.“

Kominn tími á breytingar
„Alla mína starfsævi hef ég starfað í Mosfellsbæ og í sumar ákvað ég að það væri kominn tími á breytingar. Ég sótti um starf deildarstjóra eldra stigs við Álfhólsskóla í Kópavogi sem ég fékk. Þar mun ég takast á við mörg ný og krefjandi verkefni, m.a. spjaldtölvuvæðingu. Ég mun líka koma að lífsleiknikennslu og markmiðasetningu.
Ég er einnig að undirbúa almenn námskeið í markmiðasetningu svipað því sem ég bauð upp á í Lágafellsskóla. Ég stefni á að byrja með fyrsta námskeiðið strax á nýju ári. Það verður áhugavert og skemmtilegt að breiða út boðskapinn,“ segir Beta með bros á vör er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 23. ágúst 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs