Ráðist verður í framkvæmdir við fjölnota íþróttahús að Varmá
Fyrir bæjarráði Mosfellsbæjar liggur nú til samþykktar tillaga um byggingu 3.200 fermetra fjölnota íþróttahúss sem staðsett verði austan við núverandi íþróttamannvirki að Varmá.
Um er að ræða svokallað hálft yfirbyggt knatthús þar sem eldri gervisgrasvöllur að Varmá er nú.
Samræmist stefnumörkun UMFA
Undirbúningur málsins hefur staðið yfir frá árinu 2014 og fólst í upphafi í öflun og úrvinnslu gagna þar sem ólíkar útfærslur voru vegnar og metnar.
Í upphafi var t.d. skoðað hvaða leiðir önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu farið í þessum efnum, fjallað um mögulega staðsetningu innan bæjarins, kostir og gallar ólíkra rekstrarforma voru reifaðir og loks kannað hvort að unnt væri að reisa slíkt hús í samstarf við Reykjavíkurborg.
Við þarfagreininguna var víða leitað fanga, m.a. til knattspyrnudeildar Aftureldingar, en sú tillaga sem nú liggur fyrir bæjarráði er í samræmi við stefnumörkun Aftureldingar um uppbyggingu knattspyrnusvæðis Aftureldingar.
Gert ráð fyrir hlaupabraut
Niðurstaða þessarar vinnu var sú að Mosfellsbær eigi og byggi sjálfur húsið og sú lausn sem varð ofan á hefur nú verið frumhönnuð og er áætlaður byggingarkostnaður um 308 m. kr.
Við undirbúnings verksins var jafnframt litið til þess að tryggja að fleiri aðilar í Mosfellsbæ en knattspyrnufólk geti nýtt húsið undir sína starfsemi og því er til að mynda gert ráð fyrir hlaupabraut í húsinu.
Bylting í aðstöðu íþróttafólks
„Það er ánægjulegt að nú sjái fyrir endann á þessari vinnu með þessari góðu niðurstöðu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Það er ljóst að hér verður um byltingu að ræða í aðstöðu íþróttafólks í Mosfellsbæ og þá sérstaklega þeirra sem stunda knattspyrnu sem og foreldra sem fylgjast með börnum sínum í leik og keppni. Um leið gerir þetta okkur kleift að taka á móti nýjum iðkendum við fjölgun íbúa í stækkandi bæjarfélagi.“
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við húsið hefjist á næsta ári þegar hönnun hússins og deiliskipulagsferli er lokið.