Raddir barnanna fá alltaf að hljóma

Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla segir sérstöðu skólans liggja í tækifærunum til leiks og náms.

Krikaskóli var stofnaður árið 2008 og var fyrst til húsa í Helgafellslandi en árið 2010 flutti skólinn í nýtt húsnæði að Sunnukrika. Nemendur eru um 200 talsins á aldrinum 2 – 9 ára og um 60 manns starfa við skólann.
Þrúður Hjelm skólastjóri hefur unnið að stofnun og uppbyggingu skólans frá upphafi. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á skólamálum og segist vera þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að starfa við eitt af sínum áhugamálum.

Þrúður er fædd í Reykjavík 18. maí 1965. Foreldrar hennar eru þau Guðný Guðmundsdóttir fyrrverandi starfsmaður Landspítalans og Heiðberg Hjelm fyrrverandi bílstjóri og vélamaður. Þrúður á eina systur, Aðalheiði f. 1969.

Sat undir ilmandi brauðinu
„Fyrstu tvö árin mín bjó ég fyrir austan fjall en svo fluttum við fjölskyldan í Laugarneshverfið í Reykjavík og þar ólst ég upp.
Æskuminningarnar eru ansi margar, ég man alltaf þegar Alla systir fæddist og ég fékk að sjá hana í gegnum lítinn glugga á hurðinni á fæðingardeildinni. Heimsóknirnar til langömmu og afa á Hringbraut voru dásamlegar enda var gott að koma þangað. Maður mætti oft í ullarsokkum því gólfið hjá þeim var alltaf svo stífbónað og þá var sko hægt að renna sér,“ segir Þrúður og brosir.
„Ég man líka eftir ferðunum á leið austur, áður en lagt var af stað var farið í AB bakaríið og keypt rúgbrauð til að færa afa og ömmu, svo sat maður undir heitu og ilmandi brauðinu alla leiðina.“

Morgunsöngur á hverjum degi
„Ég gekk í Laugarnesskóla frá 1.-8. bekk, þar var gott að vera og skólabragurinn í föstum skorðum. Morgunsöngur á hverjum degi og fjölbreyttur kennarahópur. Herdís Sveinsdóttir var lengst af umsjónarkennarinn minn og það fannst mér ákaflega gott. Hún var einstakur kennari og náði vel til okkar í bekknum.
Við fjölskyldan fluttum svo í Álftamýrina þegar ég var 14 ára og ég kláraði tvo síðustu veturna mína í grunnskóla þar. Skipulagið var ólíkt því sem ég hafði áður vanist en ég var ánægð og eignaðist þarna vini til lífstíðar.“

Menntaskólaárin mótuðu mig
Þrúður fór í Menntaskólann við Hamrahlíð eins og meginþorri krakka úr hennar hverfi. Þar átti hún frábær ár sem hún segir hafa mótað sig mikið. Hún útskrifaðist árið 1999 úr leikskólakennarafræðum og árið 2004 úr sérkennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands. Hún lauk Certified Project Management Associate frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2007 og er nú í námi við Háskólann á Bifröst í stjórnun og forystu með áherslu á mannauðsmál og útskrifast í vor með mastersgráðu.

Fundum hér húsnæði við hæfi
Eiginmaður Þrúðar er Guðjón Heiðar Ólafsson bílamálari. Börn þeirra eru Eva Dögg f.1983, Ólafur f. 1989 og Óskar Þór f. 1993. Þau eiga eitt barnabarn, Þráin Berg f. 2007.
Handavinna er eitt af því sem hefur fylgt Þrúði og hefur hún sinnt henni eftir því sem tími hefur gefist til, eins hefur hún lesið mikið alveg frá því hún var barn.
„Við fluttum í Mosfellsbæ árið 1999 því hér fundum við húsnæði við hæfi og eins vorum við búin að kynna okkur skólamálin vel. Varmárskóli tók vel á móti drengjunum okkar og sinnti þeirra þörfum eins og kostur var.
Sérkennslumálin voru í afskaplega góðum farvegi og almennt voru kennarar og stjórnendur skólans tilbúnir til samstarfs varðandi flókin viðfangsefni í samvinnu við okkur foreldrana, það var ekki sjálfgefið og fyrir það erum við þakklát.“

Hefur unnið að uppbyggingu skólans
Þrúður hefur alltaf haft mikinn áhuga á skólamálum og hefur því verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa við eitt af sínum áhugamálum.
„Ég sótti um starf skólastjóra Krikaskóla árið 2008 og hef unnið að stofnun og uppbyggingu þess skóla síðan. Skólinn er þróunar- og tilraunaskóli sem hefur verið brautryðjandi í ýmsum málum, bæði stórum og smáum. Samþætting leikskóla, grunnskóla og frístundar í eina heildstæða skólaeiningu er ekkert smá mál og því hefur það verkefni átt hug minn allan síðustu ár.“

Tækifæri til leiks og náms
„Sérstaða Krikaskóla liggur í nokkrum þáttum, útinám sem kemur til vegna staðsetningar, stutt er til fjalla, fjöru og í skóginn, einstaklingsmiðað nám og lýðræðislegt skólastarf með áherslu á raddir barna. Það eru mikil forréttindi að hafa tækifæri til leiks og náms í slíkum aðstæðum fyrir alla aldurshópa skólans.
Ég hef setið í stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun frá 2013 og verið formaður þeirra samtaka frá 2015. Samstarf við innlenda og erlenda aðila hefur einnig verið mér hjartans mál. Ég hef því staðið fyrir því samstarfi bæði persónulega og með skólanum mínum sem hefur verið ákaflega gjöfult.“

Falleg orð á blaði verða að veruleika
Þrúður fékk í lok síðasta árs afhenta Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar fyrir kynjasamsetningu. „Ég hef verið heppin að vinna með frábæru fagfólki innan skólans sem utan sem hefur verið mikil gæfa. Foreldrar barnanna í skólanum hafa einnig verið mikill auður og stuðningur í uppbyggingu skólastarfsins.
Ég tel að hagsmunir okkar fari saman, starfsfólks skólanna, foreldra, barna og samfélagsins alls. Það er stundum látið hljóma í umræðunni að svo sé ekki en ég er því alveg ósammála. Gott skólasamfélag er alltaf styrkur fyrir okkur öll.
Í skólanum er stór faghópur sem vinnur í þverfaglegum teymum þar sem heildin verður sterkari en hver einstaklingur. Við höfum verið lánsöm með þennan hóp sem hefur verið sterk heild, bæði í leik- og grunnskólastarfi. Það er ótrúlega merkilegt að taka þátt í slíku uppbyggingarstarfi og sjá það sem einu sinni voru falleg orð á blaði verða að veruleika og raungerast í lífi barna og fjölskyldna.“

Svör þeirra og lífsviðhorf eru svo tær
„Raddir barnanna hafa alltaf fengið að hljóma í Krikaskóla og ég hef stundum sagt ef þú ert í vafa spurðu þá börnin. Svör þeirra og lífsviðhorf eru svo tær og samtöl við þau eru alltaf gagnleg. Ekki aðeins til að brosa að heldur ekki síður til að hlusta vel og læra af þeim,“ segir Þrúður brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 30. janúar 2020
ruth@mosfellingur.is