Mosfellsbær á verðlaunapalli í könnun Gallup á þjónustu sveitarfélaga

Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir þannig viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins.
Að venju er Mosfellsbær í efstu sætum og yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum utan eins þar sem sveitarfélagið er jafnt öðrum sveitafélögum.
Á árinu 2019 var Mosfellsbær í þriðja sæti þegar lagt er mat á sveitarfélagið sem stað til að búa á og reyndust 92% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir. Meðaleinkunnin hækkar úr 4,4 í 4,5 á milli ára hjá Mosfellsbæ sem staðsetur bæinn á meðal þriggja hæstu sveitarfélaganna sem öll eru með sömu einkunn.

Mosfellsbær í fremstu röð meðal sveitafélaga
Mosfellsbær er yfir landsmeðaltali í ellefu málaflokkum af tólf en jafnt í einum málaflokki sem er þjónusta grunnskóla. Í lok árs 2019 voru þannig 83% mjög eða frekar ánægð með aðstöðu til íþróttaiðkunar en ári áður voru 77% íbúa þeirrar skoðunar sem er tölfræðilega marktæk aukning milli ára.
Það sama gildir um afstöðuna til þjónustu við eldri borgara þar sem 59% eru mjög eða frekar ánægðir með þjónustuna. Einnig vex ánægja með menningarmál, þjónustu við fatlaða og Mosfellsbæ sem stað til að búa á. Það dregur hins vegar úr ánægju milli ára á sviði leikskóla, sorphirðu, skipulagsmála, þjónustu og úrlausnar erinda sem er hvatning fyrir starfsmenn Mosfellsbæjar til að gera betur.

Ánægjuleg tíðindi
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir að könnun Gallup sé hluti af þeim gögnum sem nýtt eru til þess að vinna að umbótum í starfsemi Mosfellsbæjar og nú taki við kynning á niðurstöðum könnunarinnar í nefndum bæjarins.
„Enn sem fyrr raðar Mosfellsbær sér á verðlaunapall þegar kemur að mati íbúa á Mosfellsbæ sem stað til að búa á. Það er dýrmætt fyrir okkur sem störfum fyrir Mosfellinga að finna að þeir eru ánægðir með þjónustuna og könnunin veitir okkur grunnupplýsingar sem við getum nýtt til þess að standa okkur enn betur.
Ánægja eykst í nokkrum málaflokkum, það er síðra að hún dali örlítið á öðrum stöðum, en höfum í huga að við erum yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum nema hvað þjónustu grunnskóla varðar þar sem við erum í landsmeðaltalinu.
Síðastliðin þrjú ár hefur íbúum í Mosfellsbæ fjölgað um 1.000 manns á hverju ári. Við höfum lagt áherslu á að vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustu og þjónustustig og það virðist hafa tekist í öllum meginatriðum, en við munum halda vöku okkar og gera góðan bæ enn betri.“

Heildarúrtak í könnuninni er 10.845 manns, þar af 341 svar úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á slóðinni mos.is/gallup2019.