Ráð við rigningu…

gauiregn

Sól slær silfri á voga, sjáðu jökulinn loga. Allt er bjart fyrir okkur tveim því ég er kominn heim. Það er fátt betra en að syngja um sólina sem slær silfri á voga með þúsundum Íslendinga nokkrum mínútum fyrir risastóran fótboltaleik. Fæ gæsahúð við tilhugsunina.

Sólin var í Rússlandi en hefur minna verið hér heima í sumar eins og einhverjir hafa tekið eftir. Mikil rigning á sumrin er ekki góð fyrir þjóðarsálina, en við getum ekki stýrt veðrinu og verðum því að finna aðrar leiðir til þess að halda okkur jákvæðum. Eitt það besta sem við getum gert er að byrja daginn vel. Koma okkur upp góðri morgunrútínu sem kemur okkur í gott hugarástand.

Ég mæli með blöndu af hreyfingu, útiveru og gefandi lærdómi. Þessi blanda hefur virkað vel fyrir mig undanfarna mánuði. Morgunrútínan er ekki alltaf eins, en ramminn er svipaður. Ég vakna á bilinu 5.45 – 6.15. Fer út í stutta morgungöngu í Reykjalundarskógi. Veðrið skiptir engu máli. Ég, eins og allir Íslendingar, á föt fyrir allt veður. Það er frábært að byrja daginn á því að labba úti í náttúrinni. Hlusta á fuglana, finna lyktina af gróðrinum, anda að sér ferska loftinu. Síðan tek ég liðleika- og líkamsæfingar. Eftir æfingarnar tek ég rispu í DuoLingo tungumálaforritinu. Fyrir Rússland lagði ég áherslu á rússnesku, nú er spænskan í aðalhlutverki. Útiveran, spriklið og tungumálastúdían tekur samtals 30 – 60 mínútur. Lengdin fer eftir því hvort ég er að þjálfa morgunsnillingana sem mæta til okkar á æfingar á þriðjudögum og fimmtudögum. Sá hópur gefur manni alltaf risa orkuskot inn í daginn. Málið er einfalt, ef maður velur að byrja daginn á hlutum sem gefa manni orku, þá er maður klár í hvað sem er, jafnvel haglél í júní.

Við byggjum saman bæ í sveit, sem brosir móti sól.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. júní 2018