Píratar setja niður akkeri í Mosfellsbæ

Stjórn Pírata í Mosfellsbæ: Kristján Ingi, Einar Bogi og Sigrún.

Stjórn Pírata í Mosfellsbæ: Kristján Ingi, Einar Bogi og Sigrún.

Nýtt aðildarfélag Pírata í Mosfellsbæ var stofnað í Bókasafni Mosfellsbæjar síðastliðinn laugardag. Fundurinn var afar vel sóttur en 25-30 manns tóku þátt.
Kosin var þriggja manna stjórn félagsins og lög hins nýstofnaða aðildarfélags samþykkt. Stjórnarmenn voru kjörnir, þau Sigrún Guðmundsdóttir, Kristján Ingi Jónsson og Einar Bogi Sigurðsson.
Boðað hefur verið til fyrsta stjórnarfundar en fyrsta verkefni stjórnar er að skipta með sér verkum og boða til almenns félagsfundar sem tekur afstöðu til framboðsmála Pírata í bæjarfélaginu.

Píratar á mikilli siglingu
„Stofnun Pírata í Mosfellsbæ er enn eitt dæmið um þá miklu siglingu sem Píratar eru á,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, við fundargesti. „Við getum verið stolt af hreyfingunni okkar. Píratar eru komnir til að vera,“ bætti hún við. Þórhildur Sunna er uppalin í Mosfellsbæ þar sem foreldrar hennar búa. „Hingað á ég rætur að rekja. Hér búa foreldrar mínir og hingað kem ég oft eftir langa þingdaga og nýt þeirrar lukku að eyða tíma í fangi fjölskyldunnar í fallegu umhverfi.“

Samstarf í komandi kosningum
Fundurinn fékk góða gesti frá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ en fulltrúar hreyfingarinnar hafa þegar hafið samtal við Pírata um samstarf í komandi kosningabaráttu. Hjördís Bjartmars Arnardóttir, formaður Íbúahreyfingarinnar, sagðist á fundinum spennt fyrir nýju blóði í stjórnmál Mosfellsbæjar.

—–

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir

Stefnt að sameiginlegum fléttulista
Sigrún Pálsdóttir bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar segir að hafnar séu viðræður við Pírata um fléttulista. „Við mættum á fund Pírata um síðustu helgi til að kynna okkur og ræða málin. Ég hugsa að við munum bjóða fram saman og jafnvel með fleirum. Þetta kemur allt í ljós á næstu dögum.
Aðspurð segir Sigrún að Píratar hafi lagt upp með að hún yrði í 1. sæti sameiginlegs framboðs. „Ég og mitt fólk eigum bara eftir að ákveða hvernig það verður. Á milli Íbúahreyfingarinnar og Pírata eru ákveðnir snertifletir. Við leggjum áherslu á gegnsæi, vandaða stjórnsýslu og betra siðgæði í stjórnmálum.
Þá hafa fleiri aðilar haft samband við okkur og við erum opin fyrir samvinnu við aðra íbúa, enda erum við íbúahreyfing.“